150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar.

812. mál
[20:22]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir hvatninguna og brýninguna varðandi persónuverndarmálin, ráðherrann tekur það til sín. Hvað varðar helstu atriði frumvarpsins þá er í ákveðnum þáttum verið að ná utan um eftirlitshlutverk Vinnumálastofnunar. Það snýr ekki bara að fyrirtækjum í hlutabótaleiðinni heldur líka að einstaklingum sem eru á bótum og sannarlega vegna þess að þeir þurfa þess, ekki vegna þess að þeir séu í vinnu til hliðar. Það er því eðlilegt að við þessar kringumstæður sé sá hluti gerður skilvirkari líka. En stóra málið í frumvarpinu, og það sem mér finnst skipta mestu máli, er þetta ákvæði um að færa stöðu einstaklingsins framar þegar um gjaldþrot fyrirtækja er að ræða. Það er í raun stóra atriðið, það sem mér finnst vera hryggjarstykkið í þessu frumvarpi — það getur verið að við þingmaðurinn séum ósammála hvað það snertir — að með þessu gerum við að verkum að greiðslur geta hafist fyrr þegar um gjaldþrotaferli fyrirtækis er að ræða, þ.e. að einstaklingurinn fái atvinnuleysisbætur fyrr en er í lögunum eins og þau eru í dag.

Varðandi vangaveltur hv. þingmanns, um lengingu bótatímabilsins og að slaka á skilyrðum, þá erum við bara að skoða það. Ég held að ég hafi svarað því fyrir ekki svo löngu hér í þinginu að það væri eitt af því sem við værum að skoða, með hvaða hætti við sæjum fyrir okkur næstu skref hvað það snertir. Það er líka verið að skoða möguleika á því að hvetja fólk til virkni á vinnumarkaði og þá varðandi skilyrði. Hins vegar má það aldrei vera svo að skilyrði séu á kostnað þeirra sem þurfa raunverulega á atvinnuleysisbótakerfinu að halda vegna þess að þetta er hugsað fyrir fólk sem er án atvinnu, sem því miður eru allt of margir nú um stundir.