150. löggjafarþing — 104. fundur,  18. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar.

812. mál
[20:26]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður veltir fyrir sér sveigjanleika og skilyrðum og að við sjáum fram á gjörbreyttan vinnumarkað. Já, við sjáum gjörbreyttan vinnumarkað en ég vil nú trúa því að það sé til skamms tíma. Eðlilega er vinnumarkaður framtíðarinnar líka að breytast. Bara til að hryggja hv. þingmann þá hefur sá sem hér stendur ekki enn sannfærst um gildi borgaralauna og hugsunin á bak við atvinnuleysisbótakerfið er ekki sú að það verði einhvers konar borgaralaun, alla vega ekki í mínum huga. Hins vegar er mikilvægt að sveigjanleikinn geri það að verkum að einstaklingar sem eru á atvinnuleysisbótum geti sótt sér vinnu og þær séu hvati í þá veruna, bæði sveigjanleiki gagnvart viðkomandi einstaklingi og eins gagnvart atvinnurekendum sem sjá fyrir sér að bæta í, geta byggt upp vinnu, að kerfið styðji við það fyrir viðkomandi einstakling og fyrir fyrirtækið. Það er það sem við erum að skoða en ekki að skoða sveigjanleika sem lýtur að því að þetta breytist yfir í einhvers konar borgaralaun til lengri tíma litið.

Ég held að allar raddir séu góðar, og tek bara við þeirri hvatningu sem þingmaðurinn er með. Ég hef lagt áherslu á að ég er boðinn og búinn til að funda með velferðarnefnd hvenær sem hún óskar þess eða kallar eftir gögnum eða upplýsingum eða öðru slíku. Ég er samt ekki endilega viss um að það yrði skilvirkasta leiðin til að setja saman lagafrumvarp að allir flokkarnir yrðu settir saman til að ræða það. En ég geri mér þó grein fyrir því að þingmaðurinn er kannski ekki að kalla beint eftir því heldur bara auknu samráði og samtali um næstu skref. Jú, það er vel. Við erum að byrja að skoða bótatímabilin og síðan vinnumarkaðsúrræðin í framhaldinu. Við höfum hugsað okkur að klára frumvarpið og síðan munum við fara á fullt inn í þá vinnu. (Forseti hringir.) Ég heiti góðu samstarfi við velferðarnefnd hér eftir sem hingað til hvað það snertir.