150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[13:51]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Herra forseti. Mikill fjöldi erlends starfsfólks er á Íslandi og hefur það gegnt veigamiklu hlutverki í uppbyggingu og þeirri velmegun sem hefur ríkt hér á síðustu árum. 1. janúar 2019 voru ríflega 50.000 innflytjendur á Íslandi, rétt rúmlega 14% íbúa. Gera má ráð fyrir að stærsti hluti þessa fólks verði hér áfram þrátt fyrir versnandi efnahagshorfur. Margir skilja og tala íslensku en stór hópur gerir það ekki.

Alls voru rúmlega 5.700 erlendir ríkisborgarar á atvinnuleysisskrá í apríl og hefur fjöldi þeirra tvöfaldast miðað við sama tíma í fyrra. Atvinnuleysi á meðal erlendra ríkisborgara á Íslandi er nú um 16% og þá er ekki talinn með sá fjöldi erlendra ríkisborgara sem nú er í minnkuðu starfshlutfalli vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins á atvinnulífið.

Kunnátta í íslensku er lykillinn að íslensku samfélagi og getur ráðið úrslitum um aðlögun innflytjenda að samfélaginu. Hún styrkir stöðu þeirra á vinnumarkaði og skiptir máli upp á þátttöku í samfélaginu eins og t.d. möguleika á að taka þátt í foreldrafélögum, stjórnum íþróttafélaga, jafnvel húsfélaginu og enn víðar. Því er kjörið á þessum tímum að aðstoða innflytjendur við að nýta tímann til að styrkja stöðu sína með því að læra íslensku. Að bæta íslenskukunnáttu erlends starfsfólks er einnig leið til að vinna gegn félagslegu undirboði því að það auðveldar þessum hópi að kynna sér réttindi sín.

Íslenskukennsla fyrir útlendinga fer að mestu leyti fram í tungumálaskólum á höfuðborgarsvæðinu og í öflugum fræðslumiðstöðvum á landsbyggðinni. Það er mikilvægara, herra forseti, en nokkru sinni áður að styðja vel við þessar stofnanir til að efla kennslu og auka framboð á íslensku fyrir einstaklinga af erlendu bergi brotna (Forseti hringir.) sem kjósa sér Ísland til búsetu.