150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

störf þingsins.

[14:01]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (M):

Herra forseti. Það á að opna Ísland 15. júní nk. Þetta var tilkynnt á fundi ríkisstjórnarinnar að vanda án þess að útfærsla á því hvernig þetta yrði gert lægi fyrir. Við höfum séð ýmislegt eins að undanförnu en í framhaldinu er náttúrlega óskandi að ríkisstjórnin vandi sig og að það verði tryggt að hlustað verði á raddir fagfólks. Málið er nefnilega það, herra forseti, að við á Íslandi eigum mjög stórt tækifæri í því að laða hingað fólk sem er að leita að öryggi, fólk sem er að flýja ógn veirunnar og vill ganga að því vísu að á Íslandi sé öruggt umhverfi og að við Íslendingar séum hér eftir sem hingað til að vinna að bestu sóttvörnum eins og við getum. Þetta þurfum við að halda í, ekki bara vegna væntanlegra gesta okkar heldur einnig til að koma í veg fyrir að hér blossi upp farsótt að nýju.

Það hefur verið sagt, og ég ætla að taka undir það, að lykillinn að því að byggja upp ferðaþjónustu að nýju sé að starfsemi Icelandair stöðvist ekki. Það vill svo vel til að alla vega tvær af þeim þremur fagstéttum sem mestu máli skipta í rekstri félagsins hafa haft kjark og framsýni til að gera samninga sem gera allt í senn, að tryggja framtíðaratvinnuöryggi stéttanna og renna stoðum undir framtíðarstarfsemi félagsins. Það er óskandi varðandi þá stétt sem enn á eftir ósamið að þar náist lyktir sem eru báðum aðilum hagfelldar og að á föstudaginn verði tekin góð ákvörðun um að styrkja félagið, þ.e. hlutafé þess, þannig ríkissjóður geti gengið inn og uppfyllt þau skilyrði og uppfyllt þau loforð sem félaginu hafa verið gefin ef þetta verður. Vonandi verður farsæl lausn í þessu efni, herra forseti.