150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 302/2019 um breytingu á V. viðauka og bókun 31 við EES-samninginn.

705. mál
[14:10]
Horfa

Frsm. meiri hluta utanrmn. (Bryndís Haraldsdóttir) (S):

Virðulegur forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um tillögu til þingsályktunar um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 302/2019 um breytingu á V. viðauka sem fjallar um frelsi launþega til flutninga og um samvinnu á sérstökum sviðum utan marka fjórþætta frelsisins við EES-samninginn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund gesti frá utanríkisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti.

Með tillögunni er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingu á þessum viðauka og bókuninni.

Undir þetta falla átta gerðir sem gerð er grein fyrir í nefndarálitinu. Þær fjalla allar um EURES sem er samstarfsvettvangur um opinbera vinnumiðlun á EES-svæðinu og er rekinn af framkvæmdastjórn Evrópusambandsins.

Markmiðið með þessari vinnumiðlun er að auðvelda vinnandi fólki að flytjast á milli EES-landanna. Starfsfólk EURES kemur á sambandi milli atvinnurekenda og atvinnuleitenda og Ísland á aðild að þessu verkefni í gegnum EES-samninginn.

Hérna er um að ræða nýjar reglugerðir um þessa ágætu viðmiðun og gagnagrunn með lausum störfum og atvinnuleitendum sem rekinn er á þessu svæði.

Nefndin telur framsetningu tillögunnar í samræmi við 7. gr. reglna um þinglega meðferð EES-mála og leggur til að tillagan verði samþykkt. Undir nefndarálitið skrifa hv. þingmenn Sigríður Á. Andersen, Gunnar Bragi Sveinsson, Rósa Björk Brynjólfsdóttir, sú sem hér stendur, Logi Einarsson, Ari Trausti Guðmundsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir.