150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:42]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að taka undir ræður hv. þingmanna á undan, sér í lagi hv. þm. Halldóru Mogensen og hv. þm. Ólafs Þórs Gunnarssonar. Mig langar að benda á eitt vegna þess að sérstaklega upp á síðkastið en almennt í gegnum þingferil minn hefur mér fundist eins og það sé rosalega lítið hlustað á þessum bæ og það tekur langan tíma að koma breytingum í gegn. Það er þannig, virðulegur forseti, það tekur mjög langan tíma að koma breytingum í gegn. Mér finnst þetta mál sýna fram á það og sanna að með þrautseigju og með því að taka þátt í stjórnmálum er hægt að ná eyrum fólks þrátt fyrir það sem virðist vonlaust í upphafi. Fólk tekur stundum rökum, það tekur umræðuna, skiptir um skoðun og úr verður eitthvað jákvætt og gagnlegt. Mér finnst mikilvægt að halda því til haga að svo hafi verið í þessu máli og vil í leiðinni að sjálfsögðu þakka hv. þingmönnum, sér í lagi hæstv. heilbrigðisráðherra, fyrir störf sín í þessu máli. Svona þróun á sér einungis stað ef við tökum á málunum saman.