150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:43]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Misnotkun fíkniefna er heilbrigðisvandamál í kjarnann, það er félagslegt og sálfræðilegt vandamál. Lengi hafa stjórnvöld á Vesturlöndum tekið á því þannig að þetta sé siðferðilegt eða glæpsamlegt vandamál og reynt að leysa það þannig. Nú erum við búin að sjá af áratugalangri sögu að það virkar ekki.

Við erum líka búin að sjá tilraunir á Vesturlöndum sem virka. Portúgal var árið 2000 með massífan heróínfaraldur og afglæpavæddi þá öll fíkniefni. Það var ekki lengur glæpur að nota fíkniefni, Portúgalar ákváðu að nálgast þetta sem heilbrigðis- og félagslegt vandamál og fóru að hjálpa fíklunum. Líffræðilega kerfið er það sem brotnar í fólki. Þetta er líffræðilegt og sálfræðilegt vandamál. Ef við ætlum að nálgast það þannig af mannúð og vísindum og með því sem hefur virkað nálgumst við það þannig. Þetta er eitt fyrsta skrefið í því að stíga í þá áttina að a.m.k. þeir sem eru það langt leiddir (Forseti hringir.) að þeir eru í mikilli neyslu hafi öruggt húsaskjól, það aðgengi að þeirri heilbrigðisþjónustu sem þeir þurfa og öruggan stað til að geta neytt fíkniefnanna. Afglæpavæðingin er nokkuð sem koma skal, við sjáum að sér í lagi yngri kynslóðir en líka þær eldri eru farnar að sjá það ljós.