150. löggjafarþing — 105. fundur,  19. maí 2020.

dómstólar o.fl.

470. mál
[15:58]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegur forseti. Ég styð þetta mál vegna þess að það hefur tekið mjög góðum breytingum. Núna er það lagt fram í þriðja sinn. Fyrri tvö skiptin innihélt þetta sama frumvarp ákvæði sem sú sem hér stendur gat ekki fellt sig við og barðist töluvert á móti. Tekið hefur verið tillit til þeirra athugasemda sem ég hafði þannig að það er mjög ánægjulegt að núna sé búið að koma á jafnvægi bæði þeirra sem taka þátt í að dæma þessi mál, að þeir séu aðallega utan dómstóla, sem er til þess fallið að efla traust, og sömuleiðis að það hvernig skipað er í þennan dómstól er ekki lengur jafn miklum vafa undirorpið og það var.

Ég tek hins vegar undir með hv. þm. Helgu Völu Helgadóttur, mér finnst bagalegt að gjafsóknarákvæðið sé ekki inni. Mér hefði þótt betra að það væri til staðar en þetta frumvarp er hins vegar mikil réttarbót og þar af leiðandi styð ég það og lýsi líka ánægju með að komið hafi verið til móts við athugasemdir stjórnarandstöðunnar. Það er ekki sjálfsagt og það er ekki algengt. Ég þakka hv. allsherjar- og menntamálanefnd (Forseti hringir.) fyrir starf við þetta frumvarp.