150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu.

[15:03]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að ræða við hæstv. ráðherra um rekstrargrundvöll lítilla fyrirtækja um allt land, einkum í ferðaþjónustu. Lítil fyrirtæki eiga af einhverjum ástæðum færri málsvara hér inni þrátt fyrir að þau séu hryggjarstykkið í verðmætasköpun í landinu og stuðningur við þau sé forsenda aukinnar fjölbreytni í atvinnulífinu. Samþjöppun í atvinnulífinu er því miður mjög vel þekkt afleiðing kreppu. Þegar við horfum núna fram á mikinn samdrátt, jafnvel algjört frost í ferðaþjónustu, eykst hætta á þessari samþjöppun. Eignarhaldið færist á færri hendur, verðmætustu störfin flytjast úr fámenninu, hin verða eftir. Við sitjum uppi með miðstýrðari, einsleitari og fátæklegri ferðaþjónustu.

Hefur hæstv. ráðherra áhyggjur af þessu? Hefur hann áhyggjur af því að bankar og sjóðir, jafnvel í eigu ríkisins, velji að aðstoða stór fyrirtæki sem þau hafa veðjað á til að kaupa önnur minni en spennandi fyrirtæki sem eru í ferðaþjónustu um allt land? Teldi hann það ekki vera grátleg niðurstaða ef þessi kreppa leiddi til þess að ferðalög til Íslands yrðu með flugvél, í rútu, á hótel, niður í hvalaskoðunarbáta og enduðu í huggulegum sjóböðum þar sem fyrirtækin væru öll í eigu meira eða minna sömu eigendanna?