150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

lítil fyrirtæki í ferðaþjónustu.

[15:08]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Það er ekki endilega merki um að það sé eitthvað mikið að í viðskiptaumhverfinu á Íslandi að einhver samþjöppun eigi sér stað. Við verðum að skoða málið út frá aðeins víðara sjónarhorni og þá sérstaklega að taka tillit til þess að rekstur margra smærri fyrirtækja í ferðaþjónustu hefur verið erfiður. Hann hefur ekki verið að skila mikilli arðsemi og það getur einmitt verið frábær niðurstaða fyrir fyrirtæki, sem menn eru búnir að koma á fót og eiga sér einhverja framtíð en gengur illa að stækka með því litla eigin fé sem er til staðar, að ná samningum um sameiningu. Þannig geta menn skapað loksins verðmæti úr allri sinni vinnu þannig að ég vil ekki meina að samþjöppun sé sjálfgefið slæm. Við þurfum að passa upp á að samkeppnislögin þjóni bæði þeim markmiðum sem við höfum sérstaklega stefnt að með þeim en séu á sama tíma ekki of íþyngjandi (Forseti hringir.) fyrir atvinnustarfsemina.