150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

uppbygging í Helguvík.

[15:09]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Hæstv. forsætisráðherra upplýsti fyrr í vikunni að hugmyndir og áform hæstv. utanríkisráðherra um að byggja upp varnir og hafnarmannvirki í Helguvík hefðu verið slegin út af borðinu í ráðherranefnd um ríkisfjármál sem fjallaði um fjáraukann. Þar kom skýrt fram að þeirri tillögu utanríkisráðherra hefði verið hafnað. Nú vil ég spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort hann ætli að fylgja þessari tillögu sinni eftir, í fyrsta lagi í tengslum við fjármálaáætlun sem verður kynnt annaðhvort eftir nokkrar vikur eða hugsanlega síðar í sumar. Mun hann fylgja þessari tillögu sinni eftir þá? Hefur hann látið meta mikilvægi tillögunnar fyrir öryggis- og varnarhagsmuni Íslands?

Ég skynja að það er nokkuð breiður stuðningur við þessar hugmyndir og ég tel að hæstv. utanríkisráðherra þurfi að fá skýr svör og skýran stuðning við þær en ekki síður þarf fólk á Suðurnesjum á skýrum svörum að halda. Það er eðlilegt í öllu þessu samhengi. Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann muni halda áfram með þessar hugmyndir á þeim vettvangi þar sem hann nýtur víðtækari stuðnings en akkúrat frá samstarfsflokki og forystuflokki í ríkisstjórn.

Eins og ég gat um áðan skynja ég þingheim þannig að það sé mikill vilji til að fara vel yfir hugmyndir hæstv. ráðherra og fylgja þeim eftir, fyrst og fremst vegna öryggis- og varnarhagsmuna en líka til að skýra málin á Suðurnesjum.

Hvernig ætlar hæstv. ráðherra að fylgja þessari tillögu sinni eftir? Munum við sjá merki hennar í fjármálaáætlun eða mun hún fara inn á borð utanríkismálanefndar og þjóðaröryggisráðs eftir atvikum?