150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

uppbygging í Helguvík.

[15:13]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hæstv. ráðherra. Ég dreg ekki dul á það að þær framkvæmdir sem nú eru hafnar og útboð sem er að ljúka í júní skipta gríðarlega miklu máli varðandi öryggis- og varnarhagsmuni Íslands og frekari uppbyggingu á svæðinu. Eftir situr spurningin um þessar hugmyndir og ég kalla eftir skýru svari við spurningunni: Mun hæstv. ráðherra fylgja eftir tillögum sínum varðandi uppbyggingu í Helguvík sem tengjast öryggis- og varnarhagsmunum okkar Íslendinga? Mun hann fylgja þeim eftir við gerð fjármálaáætlunar og innan þjóðaröryggisráðs og eftir atvikum innan utanríkismálanefndar?

Mér finnst óboðlegt ef hæstv. utanríkisráðherra er settur í þá stöðu að samstarfsflokkur, forystuflokkurinn í ríkisstjórn, Vinstri græn, er kominn með neitunarvald í því að kalla eftir umræðu og taka ákvarðanir í mikilvægum málum eins og varnar- og öryggismál eru. Ég er bæði að kalla eftir svörum hjá hæstv. utanríkisráðherra, hvort hann muni ekki örugglega fylgja þessum tillögum sínum eftir vegna öryggis- og varnarhagsmuna Íslands og vegna hagsmuna Suðurnesjamanna, en ekki síður að segja að við viljum ræða þetta og við viljum sýna hæstv. ráðherra stuðning í þessu efni.