150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

samgöngusáttmáli höfuðborgarsvæðisins.

[15:23]
Horfa

Bergþór Ólason (M):

Virðulegur forseti. Fyrir hartnær tveimur árþúsundum sagði Kristur á krossinum: „Faðir, fyrirgef þeim, því þeir vita ekki hvað þeir gjöra.“ Það er ekki þannig að tilefnið nú sé viðlíka alvarlegt en margt bendir til þess að þegar skrifað var undir svokallað höfuðborgarsamkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum á höfuðborgarsvæðinu hafi fulltrúar ríkisstjórnarinnar ekki fyllilega vitað hvað þeir voru að gera. Samkomulagið sem hæstv. fjármálaráðherra skrifaði undir ásamt hæstv. forsætisráðherra og samgönguráðherra fyrir hönd ríkisstjórnarinnar virðist allt vera túlkað á þann máta að villtustu draumar meiri hlutans í Reykjavíkurborg geti ræst. Eins og við þekkjum öll virðast þeir villtustu draumar flesta daga ganga út á að þrengja sem mest að og hægja á umferð fjölskyldubílsins.

Mig langar að nefna eitt dæmi en nóg er af þeim að því er virðist vera. Í 5. lið samkomulagsins sem hæstv. ráðherra skrifaði undir þar sem fjallað er um flýtingu framkvæmda er m.a. fjallað um gatnamót Bústaðavegar og Reykjanesbrautar. Ég leyfi mér að fullyrða að fáir hafi haft ímyndunarafl til að spyrja sérstaklega hvort ekki væri örugglega átt við mislæg gatnamót á þeim tiltekna stað. Flestir gáfu sér að svo væri. Það fullyrði ég. Nú hefur komið fram á fundi umhverfis- og samgöngunefndar að ekki sé vilji fyrir því hjá Reykjavíkurborg að heimila fleiri mislæg gatnamót og að út frá því verði að vinna.

Ég spyr því ráðherra: Skrifuðu þessir þrír ráðherrar undir samkomulag upp á 120 milljarða framkvæmdir án þess að ganga úr skugga um hvort einhver af áhersluatriðum Vegagerðarinnar hvað flæði umferðar fjölskyldubílsins varðar næðu fram að ganga? Er búið að skrifa undir 120 milljarða samkomulag þar sem engin ný mislæg gatnamót verða á teikniborðinu innan Reykjavíkur þar sem umferðarhnútarnir og tafirnar eru mestar?