150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:39]
Horfa

Brynjar Níelsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að halda langa ræðu en ég verð þó að viðurkenna að ég er mjög hugsi yfir þessu frumvarpi. Ég hef mikið velt því fyrir mér að hefði þetta frumvarp komið frá Sjálfstæðisflokknum hefðu menn spurt: Er þetta nú mikilvægasta málið í dag, í miðju Covid, við lífróðurinn? Sjálfur hef ég aldrei verið hrifinn af því að beita neytendur fíkniefna eða annarra efna refsingu en ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að menn þyrftu að bera ábyrgð á eigin hegðun. Ég minnist þess að þegar ég, fyrir u.þ.b. 25 árum, lagði til að menn hættu að refsa fyrir þetta var horft á mig eins og ég væri ekki alveg úr þessari veröld en hljóðið er greinilega öðruvísi núna. Ég tek eftir því að sumir þeirra sem eru mjög miklir stuðningsmenn þessa frumvarps um neyslurými geta ekki hugsað sér að auka frelsi í sölu áfengis. Þeir vilja helst banna spilakassa. Ég tók eftir því að hv. 12. þm. Suðvest., Guðmundur Ingi Kristinsson, er mjög á móti spilakössum. Þá hugsar maður: Hvað ætlum við að gera við þá fíkla? Eru þessir spilakassar, þessar sjoppur sem þeir eru í, ekki fínasta neyslurými? Ég var bara að bíða eftir því að fá andsvar. Er það ekki fínasta neyslurými?

Það er auðvitað eitthvað bogið við það þegar mönnum finnst sjálfsagt að heimila, og að hluta á kostnað skattgreiðenda, neyslu á ólöglegum efnum. Við verðum auðvitað að byrja á því að gera hana löglega. Það eru mjög miklar mótsagnir í því að ætla að búa til eitthvert rými undir neyslu ólöglegra vímuefna sem verður náttúrlega ekki komið í neyslurýmin nema með ólögmætum hætti. Einhver myndi segja að þetta væru raunverulega hræðilega röng skilaboð, að við séum að sætta okkur við og byggja upp rými til að neyta ólöglegra efna. Í mínum huga gengur þetta ekki upp.

Ég segi alltaf: Fólk verður að bera ábyrgð á sjálfu sér og ég er tilbúinn, á kostnað skattgreiðenda, til að hjálpa því fólki sem vill hætta slíkri neyslu og hef ekkert gefið eftir í því. En öðru máli gegnir um skilaboð af þessu tagi, að segja að við eigum að búa til slík neyslurými. Það er ekki bara vegna þess að um er að ræða heilbrigðisvandamál heldur verða menn að átta sig á því að við erum að búa til svæði þar sem við ætlum að taka landslögin úr gildi og heimila eitthvað sem alla jafna er ekki heimilt. Þetta hlýtur að vera röng nálgun. Ef við ætlum að fara út í þetta verðum við, í mínum huga, að byrja á því að segja að varsla á einhverju magni, a.m.k. varsla, sé bara refsilaus. Þá get ég alveg skilið að menn segi: Ókei, það er heilbrigðismál að þeir sem ætla að neyta þessara efna séu einhvers staðar nálægt fagfólki sem getur gripið inn í ef eitthvað fer úrskeiðis. En nálgunina í þessu frumvarpi styð ég ekki, þar sem menn eru greinilega meira og minna, stuðningsmenn þessa frumvarps, einhvern veginn uppfullir af einhvers konar mótsögnum og tvískinnungi sem ég á mjög erfitt með að skilja.

Einn þingmaður sagði hér í 2. umr. að það væru mannréttindi — það er náttúrlega búið að eyðileggja það orð fullkomlega — að fá að neyta ólöglegra efna í sérstöku rými á vegum sveitarfélags. Ég næ þeirri umræðu bara ekki. Ég held að ef við ætlum að hafa þetta bannað þá verði þetta að vera bannað. En ef við ætlum að búa til einhver svona rými og hjálpa fólki þarf að byrja á því að taka refsinguna úr lögum, að það séu ekki viðurlög við því að hafa í vörslu sinni þessi efni. Ég heyri að það er enginn sérstakur áhugi á því neins staðar. (Gripið fram í: Vonandi ekki.) — Vonandi ekki, segja sumir. Ég tók eftir mörgu í ræðunum. Ég er auðvitað ekki sérstaklega sammála hv. þm. Ásmundi Friðrikssyni þegar kemur að ávana- og fíkniefnum, og áfengi sérstaklega. (Gripið fram í.) Hann sagði í ræðu sinni að hann hefði gengið í SUS og verið í stjórn þar tvítugur og verið alveg á móti afnámi einkasölu ríkisins á áfengi. Ég velti því þá fyrir mér hvað hann hefði verið að gera í SUS. En það er annað mál.

Þegar farið er í svona aðgerðir þarf að hugsa málin miklu betur. Þetta mun skapa vandamál í kringum þessa staði. Þetta mun skapa vandamál fyrir löggæsluaðila. Þetta verður, óttast ég, ekki til nokkurs gagns og jafnvel til skaða. Ég legg þá frekar til, og hef lagt til í áratugi, enda er ég alveg sammála því að neysla fíkla er fyrst og fremst heilbrigðisvandamál og félagslegt vandamál, að menn myndu afglæpavæða þetta frekar en að búa til vandamál af þessu tagi.