150. löggjafarþing — 106. fundur,  20. maí 2020.

ávana- og fíkniefni.

328. mál
[15:47]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tek eftir því að hv. þingmaður fer iðulega yfir í meinta hræsni annarra þegar hann þarf að finna afsökun fyrir því að styðja ekki við frelsismálin. Hann kemur hér og talar digurbarkalega um hve frelsið sé mikilvægt í hinu og þessu en svo þegar þau mál eru lögð fram af öðrum en Sjálfstæðisflokknum þá er allt í einu byrjað á röngum enda eða þá að eitt eða annað þarf að gera einhvern veginn allt öðruvísi. Ég tel mig hugsanlega vita svarið fyrir fram við spurningu minni en ég vona að hv. þingmaður komi mér á óvart.

Hv. þingmaður lagði fram þá prýðisgóðu hugmynd að gera vörslu á vímuefnum í einhverjum ákveðnum skömmtum refsilausa, eða eitthvað því um líkt. Það er kallað afglæpavæðing, þ.e. að neytendur séu ekki glæpamenn fyrir það eitt að neyta vímuefna eða lagatæknilega að vera með í fórum sínum neysluskammta. Það vill svo til að frumvarp hefur verið lagt fram af þingmönnum Pírata, af hv. þm. Andrési Inga Jónssyni, úr Vinstri grænum, og af þingmönnum Samfylkingar, Viðreisnar og Flokks fólksins þar sem farið er út í hina svokölluðu afglæpavæðingu. Það frumvarp hefur legið fyrir frá því í október á síðasta ári. Hv. þingmaður, miðað við ræðu hans, var ekki meðvitaður um að það frumvarp hefði verið lagt fram. Mínar upplýsingar eru samt þær að við höfum beðið um tvo flutningsmenn, sem hefðu áhuga, úr öllum flokkum. Ég veit ekki betur en að þingmenn úr flokki hv. þingmanns hafi verið beðnir um að vera meðflutningsmenn, að leggja þetta mál fram, en þeir eru ekki með. Ég vil bara spyrja hv. þingmann, í ljósi þessara gagna, í ljósi þeirrar staðreyndar sem ég hef hér gert sýnilega hv. þingmanni: Styður hann þingmál um að afglæpavæða vörslu neysluskammta á ólöglegum vímuefnum?