150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

svifryk.

571. mál
[17:42]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Ara Trausta Guðmundssyni fyrir fyrirspurnina. Líkt og kom fram í máli hv. þingmanns hefur svifryksmengun neikvæð áhrif á heilsu, sérstaklega þeirra sem eru með undirliggjandi heilsufarsvandamál. Þetta er mjög brýnt loftgæðamál og nauðsynlegt að bregðast við og draga úr svifryksmengun.

Spurt er hvaða haldbærar upplýsingar séu til um svifryksmengun á Íslandi. Mælingar á svifryki í Reykjavík hófust 1986. Árið 1994 fluttust mælingar á Grensásveg og hefur verið mælt samfleytt þar síðan. Svifryk er mælt á um 13 mælistöðvum á landinu. Umhverfisstofnun safnar saman loftgæðamælingum frá öllum mælistöðvum á landinu og sendir Umhverfisstofnun Evrópu ár hvert.

Einnig er spurt á hvers konar aðgerðum sé þörf til að hefta svifryk í bæjum og sveitum. Aðgerðir sem gagnast til að hefta svifryk geta verið mismunandi eftir svæðum og uppruna svifryksins. Í grennd við virk uppblástursvæði eru t.d. engar skammtímalausnir til en á sumum þessara svæða gæti landgræðsla verið hluti af lausn vandans. Umferð er helsta uppspretta svifryks í þéttbýli. Hæstu toppar í mælingum eiga að mestu uppruna sinn í vegryki og því áhrifaríkast að hefta svifryk þar sem byggð er þéttust. Aðgerðir felast t.d. í að rykbinda og hreinsa götur, takmarka umferð og draga úr nagladekkjanotkun.

Þá tel ég líka nauðsynlegt að sporna við svifryksmengun af völdum skotelda. Samsetning ryksins er einstaklega hættuleg og reglulega um áramót fer svifryksmengun, einkum á höfuðborgarsvæðinu, langt umfram það sem ásættanlegt er. Nýverið skilaði starfshópur skýrslu þar sem fram koma tillögur um hvernig draga megi úr neikvæðum áhrifum á lýðheilsu og loftgæði vegna mengunar af völdum flugelda. Samkvæmt ákvæðum laga um hollustuhætti og mengunarvarnir skulu heilbrigðisnefndir vinna viðbragðsáætlanir sem taka til skammtímaaðgerða varðandi loftgæði á sínu svæði. Einnig þurfa veghaldarar að koma að málum.

Um þetta er sérstaklega fjallað í handbók fyrir sveitarfélög um viðbragðsáætlanir til að draga úr loftmengun sem Umhverfisstofnun gaf út á síðasta ári.

Ljóst er að svifryksmengun er veruleg frá umferð og gatnakerfi, sérstaklega í vetrarstillum. Hægt er að ná árangri til lengri tíma með því að byggja upp hjólreiðastíga, góðar almenningssamgöngur, hvetja fólk til vistvænni samgangna og upplýsa almenning um val á dekkjum. Yfir vetrartímann þarf að leggja megináherslu á gatnakerfið, sérstaklega á umferðarmestu göturnar og þær sem liggja mjög nálægt íbúðarhúsum, skólum, leikskólum o.s.frv. Svifryksspár þarf að gera daglega og kynna. Gefi svifryksspá tilefni til er æskilegt að rykbinda umferðarmestu götur og hreinsa.

Einnig er spurt hvort í bígerð sé að skipuleggja nýjar aðgerðir gegn svifryksmengun, t.d. í þéttbýli. Árið 2017 gaf ráðuneytið út Hreint loft til framtíðar – áætlun um loftgæði á Íslandi 2018–2029. Þar eru alls sjö aðgerðir undir því markmiði að fækka fjölda daga þar sem svifryk fer yfir heilsuverndarmörk niður í 0. Ein af þeim fjallar um aðgerð til að draga úr notkun nagladekkja. Aðrar aðgerðir lúta m.a. að álögum á notkun dísilvéla, takmörkunum hámarkshraða, tíðari rykbindingu og hreinsun gatna, vegaxla og stíga, fræðsluátaki um að lausaganga bíla sé bönnuð og banni á sölu á fjarstartbúnaði í bíla sem ganga fyrir jarðefnaeldsneyti. Farið var í fræðsluátak um bann við lausagöngu bíla á síðasta ári, svo dæmi sé tekið. Rykbinding og hreinsun gatna er aðgerð sem beitt er markvisst og aðrar aðgerðir sem hér eru nefndar sem eru í bígerð.

Um síðustu áramót var um 40% allra þeirra aðgerða lokið sem tilgreindar eru í áðurnefndri áætlun um loftgæði.

Þá vil ég nefna að í nýjum umferðarlögum eru heimildir fyrir sveitarstjórnir eða Vegagerðina til að takmarka svifryk af völdum umferðar. Í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu er unnið að reglugerð þar sem settar verða fram nánari reglur um þessar heimildir.

Ég vil einnig nefna hér af þessu tilefni að nýlega úthlutaði ég styrkjum til að rafvæða tíu hafnir á Íslandi sem hlutu styrki. Í lok síðasta árs var sett reglugerð um bann við notkun svartolíu innan íslenskrar landhelgi. Báðar þessar aðgerðir stuðla að minna svifryki og auknum loftgæðum.