150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

viðbrögð við lagafrumvörpum um afglæpavæðingu neysluskammta, sölu áfengis í vefverslun og neyslurými.

658. mál
[19:12]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Ásmundur Friðriksson beinir til mín munnlegri fyrirspurn um viðbrögð við lagafrumvörpum um afglæpavæðingu neysluskammta, sölu áfengis í vefverslun og neyslurými sem varð reyndar að lögum í dag. Um er að ræða þrjú þingmál sem eiga sér nokkuð fjölbreyttan bakgrunn. Í fyrsta lagi er um að ræða frumvarp um sölu áfengis í vefverslun sem er á þingmálaskrá dómsmálaráðherra en hefur ekki ratað inn á Alþingi. Í öðru lagi er um að ræða frumvarp um afglæpavæðingu neysluskammta sem er þingmannamál. Í þriðja lagi er um að ræða stjórnarfrumvarp.

Þingmaðurinn spyr fyrst hvort ráðherra hafi áætlanir um hvernig heilbrigðiskerfið muni bregðast við ef biðlistar meðferðarheimila lengjast verði lagafrumvörpin samþykkt. Nú gætir kannski dálítils misskilnings í spurningunni að því leyti til — og þá vil ég bara tala um mál sem heyrir undir mitt embætti, sem er ákvörðun um neyslurými. Tilgangurinn með því að leggja það frumvarp fram er skaðaminnkun en ekki að fá fólk til að hætta að neyta ávana- og fíkniefna í æð. Það er ekki um það. Það er skaðaminnkunarmál. Úrræðið er sem sagt hugsað sem viðbót við þau úrræði sem til staðar eru í samfélaginu, svo sem meðferðarúrræði, en það hefur verið veikleiki í íslensku samfélagi að bjóða ekki upp á löggjöf um skaðaminnkunarúrræði. Vissulega hefur Frú Ragnheiður verið með sína starfsemi og ég gat sagt í dag frá þeirri ákvörðun að bæta við, vegna Covid-19, í rekstrargrunn Frú Ragnheiðar vegna þess hversu mikilvæg sú þjónusta er til að forða slysum og mannslátum þegar verst gengur.

Hv. þingmaður spyr um viðbrögð ef biðlistar meðferðarheimila lengjast. Hv. þingmaður notar orðið meðferðarheimili en það er bara einn staður sem skilgreinist þannig. Það er Hlaðgerðarkot, sem er rekið af Samhjálp. Þar dvelur fólk í þrjá mánuði og fær félagslega endurhæfingu með aðkomu heilbrigðisþjónustu og ekki verður séð að þessi þrjú frumvörp hafi afgerandi áhrif á stöðu biðlista þess meðferðarheimilis. Ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður sé líka að spyrja um SÁÁ en í heilbrigðisstefnu til 2030 er talað um mikilvægi þess að fólk fái rétta heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi. Og ferlið á að ganga þannig fyrir sig að á grundvelli faglegs mats sé veitt rétt þjónusta á viðeigandi þjónustustigi. Þá ber auðvitað að hafa í huga að ekki er víst að allir þurfi innlagningarþjónustu til að leysa neyslu- og fíknivanda sinn heldur geta sumir nýtt göngudeildarþjónustu og önnur vægari úrræði sem geta komið að sömu notum. Göngudeildarþjónusta SÁÁ hefur gefið góða raun og með því að nýta einfaldari úrræði skapast svigrúm til að sinna fleirum og stuðla þannig að styttingu biðlista. Þetta er allt saman í vinnslu og er mjög jákvætt.

Hv. þingmaður spyr hvort fyrir liggi kostnaður af áhrifum frumvarpanna. Fyrir liggur kostnaður af því frumvarpi sem nú hefur orðið að lögum og lýtur að því að gert er ráð fyrir því að ríkið leggi til 50 milljónir á ársgrundvelli til reksturs á móti því sveitarfélagi sem óskar eftir því að reka slíka starfsemi. Ég hef engan aðgang að slíku kostnaðarmati varðandi hin tvö frumvörpin. Frumvarp dómsmálaráðherra hefur ekki enn litið dagsins ljós og hitt er þingmannamál en lögð er sú skylda á stjórnvöld að leggja mat á fjárhagsleg áhrif hverju sinni svo að ég vænti þess að það verði gert.

Hv. þingmaður spyr hvort hjá því verði komist að auka möguleika áfengis- og fíkniefnasjúklinga á því að nýta sér meðferðarúrræði verði þessi frumvörp samþykkt. Það er auðvitað mikilvægt að faglegt mat leiði til þess að fólki sé vísað á úrræði sem skili bestum árangri, þ.e. rétta heilbrigðisþjónustu á réttu þjónustustigi. Aftur á móti er það svo að virða ber rétt hvers og eins til ákvarðanatöku um eigið líf og um eigin heilsu. Sumt fólk er, sökum erfiðra aðstæðna í lífi sínu, ekki í stakk búið til að leita sér heilbrigðisþjónustu eftir hefðbundnum leiðum. Hér getur t.d. verið um að ræða einstaklinga sem eru langt leiddir af fíkn og jafnvel heimilislausir. Við eigum sem samfélag að teygja okkur til þess fólks og það vil ég gera.

Varðandi sölu áfengis í vefverslun hefur embætti landlæknis eindregið lagst gegn því enda er takmarkað aðgengi að áfengi áhrifarík og gagnreynd leið til að draga úr skaðlegum áhrifum vegna notkunar áfengis. Í þeim efnum tek ég undir álit embættis landlæknis.