150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

viðbrögð við lagafrumvörpum um afglæpavæðingu neysluskammta, sölu áfengis í vefverslun og neyslurými.

658. mál
[19:17]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Forseti. Öflugar forvarnir meðal ungs fólks hafa dregið úr vímuefnaneyslu ungs fólks á síðasta áratug. Forvarnir virka. Að öðru leyti hefur neysla ekki minnkað hér á Íslandi þrátt fyrir refsistefnu sem er svo hörð að fólk sem gerir þau mistök að verða háð fíkniefnum býr ekki í sama heimi réttlætis og öryggis og við hin. Fólk sem er sjúklega háð fíkniefnum er í sífelldri hættu á að missa frelsi sitt, heimili sitt, börnin sín, verða fyrir ofbeldi, verða kynlífsþrælar, fá ekki fjárhagslega aðstoð og ekki heilbrigðisþjónustu. Refsistefnan er hræðilega grimm stefna og ég held að aðeins þeir sem telja að sú grimmd virki geti réttlætt þá stefnu.

Þess vegna er mikilvægt að spyrja: Hefur refsistefnan virkað? Alþjóðlegur samanburður sýnir okkur að vísindi og mannúð hafa virkað. Áratugareynsla af neyslurýmum í Sviss og afglæpavæðingu neyslu vímuefna í Portúgal hefur lækkað dánartíðni vegna vímuefnaneyslu, fækkað glæpum og dregið úr sjúkdómum. Kemur það virkilega á óvart að vísindi og mannúð virki betur til að hjálpa sjúklega háðu fólki en að sýna því grimmd? Er ekki kominn tími til að hætta að refsa fólki fyrir að neyta vímuefna?