150. löggjafarþing — 107. fundur,  20. maí 2020.

fasteignafélagið Heimavellir.

583. mál
[20:31]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa fyrirspurn. Til mín var beint þremur spurningum, í fyrsta lagi hvort á þeim fasteignum sem Heimavellir seldu á Akranesi og á hvíldu lán frá Íbúðalánasjóði væri sú kvöð, líkt og þingmaðurinn bendir á, að óheimilt væri að hafa eigendaskipti að íbúðinni nema með samþykki Íbúðalánasjóðs eða uppgreiðslu lánsins.

Slíkar kvaðir voru settar í öll skuldabréf Íbúðalánasjóðs á sínum tíma. Séu ekki áhvílandi lán frá Íbúðalánasjóði á leiguíbúðunum eru því ekki neinar kvaðir frá sjóðnum á eignunum. Þessar kvaðir eru settar til að tryggja að lán séu annaðhvort endurgreidd við sölu eða yfirtekin af kaupanda sem uppfyllir skilyrði til yfirtöku lána, óski hann eftir því við kaup á fasteignunum. Þannig fela kvaðirnar ekki í sér takmarkanir á ráðstöfunarrétti eigenda eignanna að öðru leyti en þessum.

Íbúðalánasjóður, líkt og þingmaðurinn benti á, veitti heimild til þessara eigendaskipta. Annars vegar var um að ræða að öll áhvílandi lán voru greidd upp við söluna og skilyrði kvaða voru þar með uppfyllt. Hins vegar samþykkti sjóðurinn að samhliða sölu eignanna væru áhvílandi lán yfirtekin af kaupanda sem jafnframt var leigufélag. Voru skilyrði kvaðarinnar þannig uppfyllt og Íbúðalánasjóður hafði ekki tækifæri til að bregðast við með öðrum hætti þar sem skilyrði voru uppfyllt.

Varðandi þriðju spurninguna, um hversu mörg dæmi eru um viðlíka fasteignaviðskipti, er rétt að taka fram að hér er ekki um að ræða fasteignaviðskipti Íbúðalánasjóðs og fasteignafélags. Í þessum viðskiptum hefur Íbúðalánasjóður aðeins óbeina aðkomu að viðskiptunum sem lánveitandi.

Íbúðalánasjóður tók til starfa 1. janúar 1999 og starfaði sem slíkur þar til hann varð að ÍLS-sjóði 31. desember 2019 með lögum sem samþykkt voru frá Alþingi. Á þeim tíma veitti sjóðurinn lán til yfir 10.000 leiguíbúða en í dag eru útistandandi leiguíbúðalán um 7.000 talsins. Lánveitingar sjóðsins eru samkvæmt lögum um húsnæðismál í þeim tilgangi að landsmenn geti búið við öryggi og jafnrétti í húsnæðismálum og til að auka möguleika fólks til að eignast eða leigja húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Kvöðum er þinglýst á allar eignir sem leiguíbúðalán eru veitt til, þess efnis að eigendaskipti séu óheimil nema til komi uppgreiðsla lánsins eða samþykki sjóðsins fyrir yfirtöku nýs eiganda. Er þess þá krafist að nýr eigandi uppfylli skilyrði til að geta fengið samsvarandi leiguíbúðalán. Fjöldi skipta, þar sem lán sem hefur verið veitt til leiguíbúða hefur verið greitt upp við eigendaskipti eða samþykki fyrir eigendaskiptum verið veitt, liggur ekki fyrir hjá sjóðnum.

Það má því eiginlega segja, vegna fyrirspurna hv. þingmanns, að þær kvaðir sem settar voru inn voru í raun uppfylltar vegna þess að þær sneru eingöngu að því hvort viðkomandi leigufélag sem tæki við uppfyllti sömu kvaðir sem varða endurgreiðslu eða aðrar þær kvaðir sem voru. Hins vegar má alveg velta því fyrir sér hvernig við höfum haldið á þessum málum. Það má horfa til baka og velta því fyrir sér hvort skynsamlegt hafi verið eftir efnahagshrunið að selja allar þær eignir sem Íbúðalánasjóður átti. Ég er þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt hjá hinu opinbera að halda úti opinberu leigufélagi, ekki bara í gegnum almenna íbúðakerfið sem er í eigu Bjargs, sem er í eigu verkalýðshreyfingarinnar o.fl., heldur að hið opinbera eigi að halda úti sambærilegu leigufélagi. Og þess vegna höfum við nú gert breytingar og stofnað slíkt leigufélag sem heitir Leigufélagið Bríet og á að horfa sérstaklega til landsbyggðarinnar. Það hefur nokkur hundruð eignir í sínu eignasafni og hefur getu til að fara í frekari fjárfestingar. Það horfir fyrst og síðast á það sem er fyrir utan höfuðborgina vegna þess, alveg eins og þingmaðurinn bendir á, að stærri leigufélögin virðast ekki hafa mikinn áhuga á því að halda úti virkum leigumarkaði utan höfuðborgarinnar og ekki einu sinni á Akranesi eða í Árborg eða í Kraganum í kringum Reykjavík.

Ég vil segja það, um leið og ég svara þessari fyrirspurn, að ég bind miklar vonir við þetta leigufélag. Það er stofnað að norrænni fyrirmynd, bæði horft til Svíþjóðar og Finnlands. Markmiðið er að þetta leigufélag geti vaxið á komandi árum og orðið með tíð og tíma öflugur aðili til að halda úti virkum leigumarkaði allt í kringum landið en ekki bara hér í þéttasta kjarna höfuðborgarinnar.