150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

nýting vindorku.

[15:39]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Það sem verið er að skoða núna á milli þeirra þriggja ráðuneyta sem ég nefndi er hvort hægt sé að horfa til nýtingar vindorkuhugmynda með þeim hætti að við skoðum heildrænt yfir landið hvar þessir kostir eigi við og hvar ekki, að grófskipta því með þeim hætti og þegar við vitum hvar þeir eiga ekki við út frá einhverjum ákveðnum viðmiðum — gæti verið friðlýst svæði, viðkvæmt fuglasvæði o.s.frv. — þá erum við búin að takmarka í rauninni það svæði þar sem hægt væri að nýta það og síðan yrði þá ákveðin málsmeðferð utan um þau svæði þar sem hægt er að nýta það og það er eitthvað sem við erum að skoða núna á milli ráðuneytanna.

Ég held að við þurfum að fara varlega í vindorkuna rétt eins og annað, þ.e. gera það út frá þeim þáttum sem snúa að náttúrunni og náttúruverndinni, (Forseti hringir.) til þess að við getum áfram verið hér það land sem við auglýsum okkur fyrir að vera (Forseti hringir.) sem hentar vel fyrir ferðaþjónustu, en tel að sjálfsögðu að vindorka (Forseti hringir.) sé eitthvað sem við eigum að skoða líka jafnframt öðrum kostum.