150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

[15:41]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegur forseti. Ég vona að öðrum ráðherrum í ríkisstjórninni sárni ekki þó að ég lýsi því hér yfir að málaflokkur hæstv. umhverfisráðherra sé mögulega sá mikilvægasti á þessum tímum sem og öðrum vegna þess að hann snýst um framtíðarviðurværi mannkyns, hvorki meira né minna. Á síðustu vikum höfum við séð hverju samtakamátturinn nær fram, bæði innan lands og milli landa, í baráttunni við Covid-veiruna. Þetta getur fyllt okkur von í loftslagsmálum um að við getum tekið höndum saman yfir landamæri til að vinna sigur í þeirri baráttu líka.

Ráðherrann var ekki búinn að sitja í embætti nema tæpt ár þegar hann lagði fram aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, nokkuð hráa, en eins og hann sagði á þeim tíma var hugmyndin sú að setja fram atriði sem væri hægt að hrinda í framkvæmd þá þegar, síðan yrði bætt við síðar. Í áætluninni er talað um að hún verði endurskoðuð strax árið 2019. Hér fyrir ári var talað um að uppfærð áætlun yrði lögð fram síðar á árinu. Í desember sl. sagði forsætisráðherra að ný uppfærð aðgerðaáætlun kæmi eftir áramót. Í mars sl. var talað um að stefnt væri að útgáfu áætlunar í maí og í fréttum fyrir helgi er talað um snemmsumars.

Mig langar að spyrja ráðherrann hvort hann geti nefnt dagsetningu sem við getum farið að hugsa okkur inn í, við sem hlökkum hvað mest til, og síðan vegna þess að áætlunin var send í rýni í mars og dálítið margt hefur breyst síðan, hvort það sé ekki öruggt að þeim drögum sem fóru í rýni fyrir tveimur (Forseti hringir.) eða að verða þremur mánuðum hafi ekki verið umturnað dálítið hressilega í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið (Forseti hringir.) til að tryggja að viðspyrnan eftir Covid verði græn, hvort það eigi ekki (Forseti hringir.) örugglega að nýta tækifærið og hraðspóla öllum aðgerðum sem hægt er.