150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

endurskoðun aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum.

[15:47]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Guðmundur Ingi Guðbrandsson):

Hæstv. forseti. Ef ég held aðeins áfram með það sem hv. þingmaður var að ræða, bæði í fyrri og síðari umferð, varðandi rýni þá var tekin sú ákvörðun að fá utanaðkomandi rýni, frá útlöndum, til að geta lært betur af þeim sem gjörla þekkja til og haft hafa aðkomu að og reynslu af því að skoða þessi mál mjög víða erlendis. Ég vil síðan benda á að loftslagsráð er náttúrlega líka aðili hér innan lands sem fer yfir þessa áætlun og við erum líka að vinna úr athugasemdum frá þeim.

Síðan vil ég taka undir með hv. þingmanni um mikilvægi þess að í því sem við getum náð utan um og kallað endurreisn séu í hávegum höfð þau gildi sem að baki liggja þegar við tölum um framtíð jarðarinnar og að við reynum að setja þau inn í sem allra flestar aðgerðir sem gripið verður til.