150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:04]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Mér þykir þessi umræða í rauninni snúast um tvennt sem er mögulega gagnlegt að halda aðskildu en mögulega gagnlegt að reyna að slá aðeins saman. Það er annars vegar þessi varnarmála- og öryggisuppbygging sem hefur verið í gangi og mun eflaust halda áfram að vera í gangi í kringum Reykjanes í tengslum við aðild okkar að NATO og hins vegar mikil þörf á atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum. Það er vissulega örlítið hættulegt að slá þessu of mikið saman vegna þess að það getur vakið falskar vonir. Það getur valdið því að fólk búist við því að það verði einhvers konar endurnýjun á þeim tíma sem varnarliðið var í Keflavík og það getur líka dregið athyglina frá mörgu öðru sem væri jafnvel betra að gera.

Ég ætla ekki að draga í efa nauðsyn þess að endurnýja t.d. ratsjárkerfin okkar og að við séum með góðan tækjabúnað til að hlúa að þjóðaröryggishagsmunum okkar. En mér þykir þó undarlegt að það séu ekki nýttir m.a. möguleikar á samvinnu við t.d. Geimvísindastofnun Evrópu, þar sem hægt væri að þjóna þjóðaröryggishagsmunum Íslands og samtímis öðrum efnahagslegum og samfélagslegum hagsmunum. Það eru líka margir ónýttir möguleikar á nýsköpun og uppbyggingu á atvinnuvegum á Suðurnesjum sem væri kannski eðlilegra að við værum að tala um utan við þjóðaröryggissamhengið og þá t.d. atriði sem snúa að flugsamgöngum og öðru.

Í grunninn virðist gallinn vera sá að alltaf þegar umræða er um þjóðaröryggismál, varnarmál eða hernaðaruppbyggingu á Íslandi er það á forsendum Bandaríkjanna. Það er alltaf á forsendum þess hvað Bandaríkin þurfi til að geta þjónað okkar öryggi. Þetta er auðveld hugsunarvilla þar sem okkar þjóðaröryggi hefur verið samtvinnað Bandaríkjunum svo lengi. En það vantaði eftir að (Forseti hringir.) varnarliðið fór og vantar enn að tekið sé á þjóðaröryggisumræðunni út frá forsendum þess hvernig land (Forseti hringir.) getur verið herlaust evrópskt lýðræðisríki í einu mikilvægasta (Forseti hringir.) sjávarplássi heimsins.