150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:13]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U):

Virðulegi forseti. Ég verð að viðurkenna að umræða um frekari uppbyggingu í Helguvík á vegum NATO kom mér nokkuð spánskt fyrir sjónir þegar hún birtist í fjölmiðlum. Það hljómaði eins og ekkert væri að ske í byggingarframkvæmdum á vegum NATO á því svæði. Eins og hæstv. ráðherra fór yfir í framsögu sinni er öðru nær, það er verið að framkvæma fyrir 13–14 milljarða á varnarsvæðinu á næstu árum.

Viðhald og endurbætur kallar ráðherrann það, en sitt sýnist hverjum. Það er t.d. umdeilanlegt varðandi það sem gárungarnir vestra kalla „base in a box“, með leyfi forseta, sem við myndum væntanlega þýða sem herstöð í kassa. Þarna er verið að koma fyrir öllum þeim innviðum sem þarf til að geta komið á 1.000 hermanna stöð án fyrirvara ef þörf krefur. Þetta er töluvert meira en bara endurbætur á því sem fyrir er. Það er verið að búa til nýtt konsept uppi á Keflavíkurvelli.

Herskipahöfn er hins vegar ekki á Reykjanesi. Það er engin herskipahöfn í Helguvík þannig að ég sé ekki hvernig uppbygging hennar myndi flokkast undir viðhald og endurbætur, sama hversu ríkan vilja við höfum til að teygja og toga allar skilgreiningar á þeim orðum.

Virðulegur forseti. Það sem þetta mál endurspeglar kannski er það hversu mikið leynd veldur tortryggni. Óvíða er meiri leynd og meira pukur en í kringum varnarmálin og þess vegna er dálítið eðlilegt að við efumst þegar við heyrum ómótaðar hugmyndir um uppbyggingu í þágu varnarmála sem ekki sér fyrir endann á. Þess vegna brá mér nokkuð í brún þegar ég sá á þingmálaskrá ráðherra frumvarp um endurskilgreiningu á mörkum öryggissvæðis við Gunnólfsvíkurfjall, sem væri kannski ágætt að fá ráðherrann til að koma aðeins inn á, vegna þess að þar erum við aftur með starfsemi NATO á landi. Hugmyndir heimamanna um að byggja upp (Forseti hringir.) stóra höfn í Finnafirði, þar í bakgarðinum — hæstv. forseti er kunnugri staðháttum en sá sem hér stendur, en gæti þetta verið einhver baktjaldaleið til að komast í djúpa vasa hermálayfirvalda til að niðurgreiða uppbyggingu á stórskipahöfn í Finnafirði?