150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:19]
Horfa

Páll Magnússon (S):

Virðulegi forseti. Að lengja og styrkja viðlegukant í höfninni í Helguvík er ekki aukning á hernaðarumsvifum. Að byggja ný og stór vöruhús uppi á Keflavíkurflugvelli í stað gamalla og illa farinna sem eru að hruni komin felur ekki í sér aukin hernaðarumsvif. Hv. formaður Samfylkingarinnar sagði áðan að engin beiðni væri komin um að fara í þá hluti, m.a. sem ég nefndi hér, eins og við gætum aldrei og mættum aldrei eiga frumkvæði að nokkrum sköpuðum hlut án þess að fyrir lægi beiðni frá Bandaríkjunum. (LE: NATO.) — Bandaríkjunum eða NATO, því að þetta er tvíhliða eða þríhliða samstarf. Eigum við sem sagt aldrei að taka frumkvæði um eigin varnir og eigin innviði heldur alltaf að bíða eftir því að fá einhverja beiðni utan úr heimi? Hvers lags lítilþægni er þetta eiginlega?

Allir gera sér grein fyrir því að varnarumsvif NATO eiga ekki og munu náttúrlega aldrei ráðast af atvinnustigi á Suðurnesjum. Hernaðarumsvif NATO ráðast ekki af því hvort þök eru farin að leka á Keflavíkurflugvelli. Tímasetning nauðsynlegra og fyrirhugaðra framkvæmda má hins vegar auðveldlega taka mið af því að t.d. í Reykjanesbæ er atvinnuleysið í dag 28%. Við megum einfaldlega og auðveldlega spyrja, og það er engin goðgá að gera það: Er mögulegt að fara strax í þau viðhalds- og endurbótaverkefni sem fyrirhuguð eru á næstu fimm árum í ljósi þeirra aðstæðna sem hér eru?

Herskip voru nefnd. Við erum skuldbundin til að þjónusta herskip á vegum NATO hér líka samkvæmt varnarsáttmálanum. Er ekki bara ágætt að sú þjónusta og þau skip fari úr miðbæ Reykjavíkur, þar sem borgarstjórnin vill ekki einu sinni hafa þau, til Helguvíkur, skip sem við þurfum hvort sem er að þjónusta undir þessum formerkjum? Það er engin goðgá að taka mið af því að á þessu atvinnusvæði (Forseti hringir.) er 28% atvinnuleysi þó að það ráði ekki ferðinni.