150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

varnartengdar framkvæmdir á Suðurnesjum.

[16:30]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V):

Herra forseti. Ég ætla ekkert sérstaklega að tala um varnarmál í mínu slotti heldur kannski frekar vinnubrögð og mögulega villiketti. Ég ætla ekki einu sinni að tala um skilgreiningu á því hvað eru varnarframkvæmdir eða hernaðaruppbygging. Þetta liggur býsna skýrt fyrir og er ekki háð persónulegum og pólitískum skoðunum hvað þar er um að ræða, þaðan af síður einhverri tímabundinni tækifærismennsku. Það liggur einfaldlega fyrir í hvaða farveg slík mál eiga að fara hjá okkur og það dregur ekki úr skilningi mínum og samúð í garð fólks sem býr við þær atvinnuaðstæður sem fólk á Suðurnesjum býr við núna að ég haldi því fram að framtíðarstaða og framtíðaruppbygging í þessum málaflokki, í varnarmálum, hér á landi trompi það. Við þurfum að vanda vel til verka og við stökkvum ekki til af því að stjórnarliðar missi úr sínum herbúðum, úr hjörðinni sinni, einhverja ketti sem fara í kapphlaup um fjölmiðlaumfjöllun um tækifærislausnir í atvinnumálum.

Þetta er einfaldlega ekki tímapunkturinn til þess. Við höfum borið gæfu til, þessir átta þingflokkar hér, jafn ólíkir og þeir eru, að standa saman undanfarnar vikur um mál sem skipta miklu máli. Ég hygg að hver einasti flokkur hafi bakkað með ákveðin áhersluatriði af því að við höfum verið sammála um stóru myndina. Það er mjög miður ef sú samstaða er að rofna núna og það er verulega sérstakt ef það skarð kemur úr stjórnarflokkum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Það er saga til næsta bæjar. Mér finnst mikilvægt að við höldum þessu aðskildu, að við stillum hér saman strengi og aðstoðum Suðurnesjafólk í þeim vandkvæðum sem það stendur frammi fyrir núna vegna Covid og eru vonandi tímabundin. Stærri umræða, hernaðaruppbygging (Forseti hringir.) og þjóðaröryggismál Íslendinga eru einfaldlega veigameiri en svo að þau séu skiptimynt í tímabundinni tækifærismennsku stjórnarflokkanna. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)