150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:40]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum nr. 38/2018, um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Í lögunum er kveðið á um að félagasamtök, sjálfseignarstofnanir og aðrir þjónustu- og rekstraraðilar sem hyggjast veita þjónustu samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir skuli afla starfsleyfis ráðuneytisins. Í lögunum er gert að skilyrði að ráðuneyti afli umsagna notendaráðs í því sveitarfélagi þar sem starfsemin fer fram áður en leyfið er veitt.

Hugtakið notendaráð er ekki skilgreint í lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir en í 8. gr. laga um félagsþjónustu sveitarfélaga kemur fram að sveitarfélög skuli starfrækja sérstök notendaráð sem tryggja aðkomu hagsmunasamtaka notenda við stefnumörkun og áætlanagerð sveitarfélags í málefnum er varða fatlað fólk. Við framkvæmd ákvæðisins hefur sú skylda að afla umsagnar frá notendaráðum valdið miklum töfum á útgáfu starfsleyfa, m.a. vegna þess að í sumum sveitarfélögum hefur reynst erfitt að skipa notendaráðin. Þá hafa starfandi notendaráð gert athugasemdir við fyrirkomulagið þar sem notendaráð hafa ekki alltaf forsendur til að meta umsækjendur, sérstaklega þegar fatlaður einstaklingur sækir um starfsleyfi til að vera sjálfur umsýsluaðili eigin samnings um notendastýrða persónulega aðstoð, þ.e. NPA.

Þær miklu tafir sem hafa orðið á útgáfu starfsleyfa vegna þessa fyrirkomulags koma fyrst og fremst niður á notendum þjónustunnar. Ef starfsleyfi fást ekki útgefin getur sú staða komið upp að framboð á þjónustu verði takmarkað með tilheyrandi erfiðleikum fyrir notendur þjónustunnar og þá sem vilja sinna þjónustu við þá.

Ákvæði 7. gr. laganna felur í sér þá skilyrðislausu skyldu ráðuneytisins að leita umsagnar notendaráðs þar sem starfsemin fer fram, óháð því hvort um sé að ræða lögaðila sem hefur með höndum rekstur þjónustu við fatlað fólk eða fatlaðan einstakling sem kýs sjálfur að sjá um umsýslu eigin samnings um NPA. Í framkvæmd hefur þessi skylda valdið ýmsum erfiðleikum og í sumum tilvikum hefur reynst ómögulegt að veita starfsleyfi.

Virðulegi forseti. Í frumvarpi þessu er lagt til að í stað skyldu til að leita umsagnar notendaráða í öllum tilfellum þegar sótt er um starfsleyfi á grundvelli 7. gr. laganna verði lagt fyrir ráðherra að útfæra samráð við notendaráð fatlaðs fólks í reglugerð. Eftir sem áður ber ráðherra að hafa samráð við hagsmunasamtök fatlaðs fólks, Samband íslenskra sveitarfélaga og heildarsamtök launafólks við gerð slíkra reglna.

Áform um gerð frumvarpsins voru kynnt á vettvangi samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks sem skipuð er á grundvelli 36. gr. laga um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir. Áformin voru einnig kynnt öðrum ráðuneytum. Fjölþætt samráð hefur verið haft við hagsmunaaðila við vinnslu frumvarpsins og í aðdraganda þess.

Virðulegi forseti. Í ljósi þess sem að framan greinir legg ég mikla áherslu á að frumvarpið verði samþykkt sem fyrst til hagsbóta fyrir notendur og þá sem veita þeim þjónustu.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að frumvarpinu verði vísað til hv. velferðarnefndar.