150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:45]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Takk fyrir þessar ábendingar eða vangaveltur og fyrirspurnir. Ég held að það sé mikilvægt að hafa virkt notendasamráð og það held ég að allir hafi lagt áherslu á. Við eigum að tryggja aðkomu þeirra sem nýta þjónustuna, eða hagsmunasamtaka þeirra, þegar um svona mál er að ræða. Eins og ég rakti í framsögunni hefur reynst erfitt, vegna þess hvernig lögin eru orðin, að veita starfsleyfi. Það er nefnilega skilyrðislaus krafa að það sé lagt fyrir notendaráð. Mín afstaða er sú að heppilegra sé að reglugerðarheimild sé áfram þarna inni og við förum síðan í að forma reglur um það með hvaða hætti það yrði útfært. Hugsanlega gæti það sem hv. þingmaður kemur hér inn á verið eitthvað sem hægt væri að forma í reglugerð en ég hallast að því að það sé skynsamlegt að gera þetta svona. Við eigum að halda þessari skyldu inni en að það sé formað í reglugerð með hvaða hætti það verður útfært. Það kunna hins vegar að vera aðrar leiðir í því að höggva á þann hnút sem þarna myndast eða þessar þrengingar sem valda því að við getum ekki afgreitt starfsleyfi. Ég treysti því að nefndin skoði það í sinni vinnu við frumvarpið, kannski aðgerðir sem nái þá jafnvel sama markmiði. En þetta er alla vega sú útfærsla sem teiknuð var upp og hefur verið kynnt í samráði við hagsmunasamtök fatlaðs fólks. Ég veit ekki annað en að því hafi verið vel tekið þar.