150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:49]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er ákveðin tilhneiging hjá hinu svokallaða kerfi, þ.e. yfirvöldum, að einfalda hlutina fyrir sjálft sig þegar vandamál verða til sem bitna á skjólstæðingum. Ég veit ekki um neinn málaflokk sem þetta á betur við um en útlendingamál þar sem sífellt er verið að laga einhver kerfisbundin vandamál sem koma niður á hagsmunum skjólstæðinga en væri hægt að leysa á allt annan hátt, það bara ekki vilji hjá yfirvöldum til að leysa þau.

Fatlað fólk er hópur sem hefur því miður þurft að venjast því að vera undanskilinn og að ekki sé hlustað á hann, enda er slagorðið: Ekkert um okkur án okkar. Það er alveg full ástæða fyrir því slagorði. Það er vegna þess að það er mjög gjarnan ekki hlustað á fatlað fólk og þarfir þess. Og þegar laga þarf eitthvað er stutt í það, vil ég meina, að yfirvöld vilji breyta hlutunum á einhvern hátt sem er heppilegur fyrir yfirvöld.

Þess vegna verð ég að spyrja nánar út í samráðið sem minnst er á í frumvarpinu. Það er mjög stuttlega fjallað um að það hafi verið kynnt á vettvangi samráðsnefndar um málefni fatlaðs fólks. Hæstv. ráðherra nefndi í andsvari við annan hv. þingmann að hann vissi ekki betur en að því yrði tekið vel þar. En ég verð að spyrja: Komu einhverjar athugasemdir? Komu einhverjar aðrar tillögur? Ef við myndum spyrja samráðsnefnd um málefni fatlaðs fólks eða önnur hagsmunasamtök fatlaðs fólks, myndu þau styðja tillögurnar? Ég spyr vegna þess að mér finnst það ekki alveg ljóst í greinargerð frumvarpsins. Ég var að vona að það kæmi skýrar fram í ræðu hæstv. ráðherra en varð ekki var við það. Sömuleiðis velti ég fyrir mér hvort samráðsskyldan í 7. gr. laganna, sem er þegar til staðar, sé nógu skýr. Þar er sagt að fá skuli umsögn hagsmunasamtaka fatlaðs fólks en ekki endilega að hagsmunasamtök fatlaðs fólks hafi meira stýrandi áhrif á ákvarðanir en það.