150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[16:55]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar ábendingar. Ég held að það eigi ekki að vera nokkurt vandamál að koma með drög að slíkri reglugerð til nefndarinnar og væri hægt að vinna hana í þéttu samráði við nefndina þegar hún vinnur málið.

Ástæða þess að þetta frumvarp kemur núna en ekki í haust er m.a. sú að það hefur gengið erfiðlega að gefa út starfsleyfi í ákveðnum sveitarfélögum en einnig vegna þess að við erum með aðgerðapakka sem samþykktur var varðandi sérstaka og aukna þjónustu fyrir þessa viðkvæmu hópa nú í sumar vegna Covid-ástandsins og þeirrar einangrunar sem margir hafa þurft að búa við. Menn eru þegar búnir að sjá að það yrði vandkvæðum bundið að veita slíka þjónustu í öllum sveitarfélögum, þ.e. aukna þjónustu, á grundvelli fjárveitingar sem Alþingi hefur ákveðið, m.a. vegna þess að við gætum ekki farið í gegnum starfsleyfiskaflann hjá öllum sveitarfélögunum eins og aðstæður eru núna. Það tæki einfaldlega of langan tíma og sumarið væri búið, komið haust og jafnvel vetur áður en það gerðist.