150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

þjónusta við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir.

838. mál
[17:02]
Horfa

félags- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér held ég að gæti ákveðins misskilnings. Við erum ekki eingöngu að tala um NPA-samninga. Við erum að tala um alla þá þjónustu sem veitt er til fatlaðs fólks, alveg sama hvort um er að ræða NPA-þjónustu eða aðra þjónustu. Öll sú þjónusta þarf að fara í gegnum það að sækja um ákveðin starfsleyfi. Við megum ekki hafna starfsleyfum á grundvelli notendasamráðs. Það sem skiptir máli í því er að hér erum við að reyna, af því að þingmaðurinn vitnaði til stjórnarskrárinnar, að gera breytingar til að geta betur uppfyllt það ákvæði stjórnarskrárinnar.

Þegar kemur að NPA þá vinnum við þar með nýja löggjöf sem við höfum verið að vinna eftir í samráði við sveitarfélögin. Þar hefur okkur á undanförnum árum tekist að fjölga NPA-samningum og ég bind vonir við að við getum haldið áfram á sömu braut. En það er ýmislegt í þeim lögum sem þarf að lagfæra og þarf að betrumbæta og ég bind vonir við að geta komið með einhverjar breytingar hvað það snertir á næsta þingi.