150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:15]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er mjög áhugavert frumvarp. Það eru nokkur atriði sem mig langar til að drepa aðeins á á þeim stutta tíma sem við höfum hérna. Fyrst langar mig til að spyrja: Erum við að gefa út stafrænan gjaldmiðil? Það hljómar dálítið þannig. Þetta á að vera aðgengilegt í snjallforriti í síma eða með kóða á vefsíðu og í tengslum við það kemur upp dálítið áhugaverður hlutur sem hefur með persónuvernd að gera. Það eru ansi miklar upplýsingar þarna um notkun hins almenna skattgreiðanda, hvernig hann kýs að deila þessari gjöf eða nota hana. Í þriðja lagi er í 3. gr. skipting á milli fyrirtækja, þau sem voru í rekstrarerfiðleikum 31. desember 2019 geta einungis fengið 25 milljónir í formi ferðagjafar á meðan önnur geta fengið 100 milljónir. Og hvernig vitum við, hvernig vita neytendur í rauninni, upp á gagnsæi, hvaða fyrirtæki um ræðir? Þegar unnið er í áttina að auknu gagnsæi er þetta (Forseti hringir.) áhugavert, sérstaklega ef maður spyr hvort það myndist einhvers konar ójafnvægi á milli þessara tegunda fyrirtækja.