150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[17:20]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Forseti. Það sem ég er hrifinn af í þessari aðgerð er að neytandanum er treyst til að velja, þ.e. að vissu leyti er markaðsleið falin í þessu. Allir yfir 18 ára fá 5.000 kr. og svo velja þeir hvar þeir vilja nota þann pening. Það er eitt sem mig langar að spyrja ráðherra um í samhengi við þau Covid-mál sem hún hefur lagt fram: Kostnaður við þetta frumvarp er metinn á u.þ.b. 1,5 milljarða, sem skilar sér þá að einhverju leyti til ferðaþjónustu innan lands. Hvað er það mikið í samanburði við þá peninga sem annars eru fastir, ef annað Covid-frumvarp hæstv. ráðherra nær fram að ganga, í 12 mánuði og nýtast þá ekkert á þessu ári og fram á næsta vor innan lands vegna þess að fólk fær ekki endurgreitt þá peninga sem það var búið að borga til ferðaskrifstofanna? Bara svo að við sjáum samhengið í þessum tölum.