150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:17]
Horfa

Björn Leví Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði aðeins um tæknilegu útfærsluna, sem honum þótti vera nægjanleg og góð o.s.frv. Mig langaði aðeins til að spyrja: Af hverju? Því að þegar maður skoðar það aðeins eru þetta upplýsingar sem Ferðamálastofa er með einhvern aðgang að, alla vega hvað varðar eftirlit með framkvæmdinni. Þetta er snjallsímaforrit sem fólk þarf að setja upp eða skrá sig inn á vefsíðu til að ná í kóða. Þegar hann er notaður myndast gríðarlega mikið af upplýsingum um það hver notar fjármagnið og í hvaða tilgangi, svo maður tali nú ekki um snjallsímaforritin sjálf sem veita aðgang að alveg gríðarlega miklu af öðrum upplýsingum.

Hæstv. ráðherra sagði áðan að engum persónuupplýsingum væri safnað, en þær verða samt til. Þó að persónuupplýsingum sé ekki safnað gerist það bara við það að gefa út gjafabréfið fyrir mig, fyrir einhvern úti í bæ. Þá er gjafabréfið tengt á viðkomandi einstakling. Það sést greinilega þegar hann notar viðkomandi kóða og hvar og þess háttar, því að það eru augljóslega vensl þar á milli. Fyrirtækið þarf síðan að taka við þessum peningum og fá þá frá hinu opinbera. Þá er maður kominn í heilan hring í því hver gerði hvað og hvenær og safna þarf ýmsum lýðfræðilegum upplýsingum, eins og í hvað fólk í hvaða tekjuflokki notaði peninginn, við hvaða tilefni o.s.frv. Það er mjög margt hægt. En tæknin þarna er dálítið vafasöm.

Mig langaði að velta því upp með hv. þingmanni: Af hverju er þetta svona vel gert tæknilega séð?