150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

ferðagjöf.

839. mál
[18:34]
Horfa

Birgir Þórarinsson (M) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að koma inn á þetta mikilvæga mál og ég segi hér að ég treysti félögum mínum í nefndinni til að fara vandlega yfir það. Eins og það horfir við mér hef ég miklar efasemdir gagnvart því máli. Ég þekki dæmi þess að fjölskylda hafi safnað fyrir fjölskylduferð sem kostar mikla peninga, á aðra milljón króna, sem hafi síðan ekki verið farin og hún fái ekki endurgreiðslu nema þá í formi einhverrar inneignarnótu o.s.frv. Það er mál sem fara þarf mjög vandlega yfir. Ég tek heils hugar undir það sem hv. þingmaður nefndi í því sambandi.

Ég minni líka á að flest ef ekki öll þessi fyrirtæki kaupa tryggingar og eru þær hugsaðar í þessum tilgangi, þ.e. ef ferð er ekki farin og fyrir því liggja lögmætar ástæður ber að endurgreiða það. Það verða menn að sjálfsögðu að halda í heiðri. Og þrátt fyrir að við búum við fordæmalausar aðstæður og fyrirtækin hafi skiljanlega ekki getað staðið við ferðirnar vegna faraldursins eiga þau engu að síður að eiga tryggingar og það er nokkuð sem fara þarf vandlega yfir í málinu. Að endingu vil ég segja að við tökum þetta mjög alvarlega í nefndinni og munum fara vandlega yfir það. Vonandi fæst ásættanleg niðurstaða fyrir alla aðila hvað það varðar þannig að menn geti vel við unað og að gætt verði fyllstu sanngirni þegar kemur að endurgreiðslum.