150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allsh.- og menntmn. (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P) (andsvar):

Virðulegur forseti. Að mínu mati og fleiri er eitt af aðalatriðunum þegar kemur að því að endurhanna stuðningskerfi við námsmenn, það hvort lánsfjárhæðin dugi til framfærslu. Það var rætt ansi mikið á fundum nefndarinnar og höfðu umsagnaraðilar oft orð á því. Hv. meiri hluti hefur ekki brugðist nógu vel við því að mínu mati, eins og kemur fram í nefndaráliti mínu og fleiri sem skiluðu inn slíku. En ég var að velta fyrir mér í ljósi þess sem hv. þingmaður nefndi, og nefndarálitsins, hvort hv. þingmaður telji líklegt að breyting verði á háttum Menntasjóðs miðað við að ekki eru gerðar efnislegar breytingar á því við hvað skuli miðað.