150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[19:30]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég og hv. þingmaður séum algerlega sammála um að um tímamótafrumvarp er að ræða sem bætir námslánakerfið verulega þegar á heildina er litið og kemur mun betur til móts við fólk að mjög mörgu leyti. Þarna eru mörg og merkileg nýmæli og eins og þingmaðurinn veit hefur þetta stóra mál verið í vinnslu í minnst tíu ár og lagt fram tvisvar sinnum áður af öðrum ríkisstjórnum. Þannig að við erum komin ansi langt og ég tel að við séum komin með mjög gott frumvarp. Í meirihlutaálitinu segir, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn bendir á að í 2. mgr. 2. gr. er kveðið á um að miða skuli við að framfærslulán nægi námsmanni til að standa straum af almennum framfærslukostnaði á Íslandi meðan á námi stendur að teknu tilliti til fjölskyldustærðar og búsetu.“

Um er að ræða skyldu sjóðstjórnar til að ákvarða framfærslulán þannig að það dugi námsmönnum sannarlega til framfærslu. Ákvörðun um þetta er og verður því í höndum sjóðstjórnar samkvæmt þessu frumvarpi og (Forseti hringir.) ég held að það sé góð ákvörðun.