150. löggjafarþing — 108. fundur,  25. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[21:00]
Horfa

Frsm. meiri hluta allsh.- og menntmn. (Silja Dögg Gunnarsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var ágætt að fá það á hreint að þingmaðurinn er í sjálfu sér bara ósammála því meginmarkmiði nýs Menntasjóðs að lánahlutinn verði sjálfbær. Þingmaðurinn nefndi einnig að hann hefði viljað sjá framlag ríkisins vera meira. Ég spyr þingmanninn: Hversu mikið meira? Vill hann, eins og 1. minni hluti, hækka t.d. styrkina úr 30 í 40% en hafði ekki kostnaðartölur þar um? Ég velti fyrir mér hvað þingmaðurinn sér fyrir sér þar.

Varðandi tekjutengingu og aldursviðmið er gerð mjög góð grein fyrir ákvörðun um tekjutengingu við tiltekið aldursmark, sem við í meiri hlutanum hækkuðum þó í ljósi ástandsins í þjóðfélaginu í dag. Það eru náttúrlega minni líkur á því að fólk nái að greiða lán sín til baka því eldra sem það er þegar það tekur lánið og það er dýrara. Þjóðfélagið fær minna til baka af þeirri menntun sem aflað er ef fólk fer mjög seint í nám á starfsferlinum. Það er staðreynd sem við þekkjum öll. Það er ekki verið að koma í veg fyrir að fólk fari í nám, það getur sótt um námslán og getur fengið þennan styrk, niðurfellingu eftir námsframvindu og jafnvel ef það er með börn á framfæri og annað slíkt, þannig að það er ekki verið að skerða réttindi fólks. En hins vegar er ekki boðið upp á tekjutengingu. Það eru mjög góð rök fyrir því. Það er vegna þess að lánahlutinn þarf að vera sjálfbær.

Varðandi ábyrgðirnar þá nefndi þingmaðurinn sorgleg dæmi um það þegar fólk er kannski ómeðvitað komið í ábyrgð fyrir námslán sem er ekki í skilum. En þegar fólk situr í óskiptu búi þá skrifar það undir það þegar það tekur við búinu að það taki við bæði skuldum og eignum. Það er bara mjög sorglegt þegar fólk áttar sig ekki á því hverju það er að taka við. Ég spyr (Forseti hringir.) hvort þingmaðurinn geri sér grein fyrir þeim kostnaði sem myndi falla á ríkið (Forseti hringir.) ef allar ábyrgðir, „no matter what“ — ég má ekki sletta, afsakið, herra forseti — yrðu felldar niður.