150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

strandveiðar og veiðar með snurvoð.

[10:54]
Horfa

sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra (Kristján Þór Júlíusson) (S):

Virðulegi forseti. Hér er fullyrt að snurvoðin sé einhver sérstakur skaðvaldur í lífríki sjávarins. Ég leyfi mér að halda því fram að svo sé ekki. Það eru önnur veiðarfæri sem eru til muna verri en snurvoð, bara svo það sé sagt hér. Þegar hv. þingmaður ræðir hér hvort banna eigi skipi frá Suðurnesjum að veiða í einhverjum tilteknum firði eða einhverri tiltekinni veiðislóð við landið, hvar ætlar hv. þingmaður þá að draga mörkin? Á að banna Hornfirðingum að koma norður á Húnaflóa eða Suðurnesjamönnum að veiða út af Öxarfirði? (Gripið fram í.)

Ég held að við séum komin á einhvern kolvitlausan stað ef við ætlum að fara skipta þessu eftir því hvaðan áhafnir eða skip koma. Við eigum að stýra veiðunum út frá allt öðrum forsendum en þeim að handvelja hvort okkur líkar vel við tiltekið svæði eða tiltekið útgerðarform.

Hv. þingmaður nefndi reglugerðafarganið. Sá sem hér stendur hefur ekki aukið á reglusetninguna heldur þvert á móti gengið þann veg að skera það niður. Ég minni hv. þingmann á að við höfum fækkað reglugerðum á málefnasviði sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis um hátt í 1.300.