150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

843. mál
[14:21]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til breytinga á lögum um Nýsköpunarsjóð atvinnulífsins. Frumvarpið felur í sér að nýtt bráðabirgðaákvæði bætist við lögin sem setur umgjörð utan um framkvæmd stuðnings-Kríu, sem kölluð er, af hálfu Nýsköpunarsjóðs. Stuðnings-Kría er hluti af efnahagsaðgerðum stjórnvalda til að mæta neikvæðum áhrifum af kórónuveirufaraldrinum. Úrræðið var kynnt í öðrum stuðningspakka ríkisstjórnarinnar og er hugsað sem viðspyrna fyrir sprotafyrirtæki vegna erfiðra aðstæðna þeirra um þessar mundir. Í úrræðinu felst að sprota- og nýsköpunarfyrirtæki geta óskað eftir mótframlagsláni frá ríkinu til móts við fjármögnun fjárfesta. Hið opinbera mun þannig veita lán til lífvænlegra sprotafyrirtækja sem geta aflað sér fjármögnunar frá fjárfesti á móti. Lánin sem veitt verða munu verða á sömu kjörum og fjármögnun fjárfesta og lúta sömu skilmálum. Lánin verða í formi skuldabréfs með breytirétti og munu bera sömu vexti og fjármögnun fjárfesta til viðkomandi fyrirtækis. Lánin verða lengst veitt til þriggja ára eða til sama tíma og fjármögnun fjárfestis ef sú fjármögnun er í formi láns til skemmri tíma. Ríkið mun þannig mæta fjármögnun einkafjárfesta á sömu kjörum og ef lánin verða ekki greidd upp á lánstímanum breytast þau í hlut í viðkomandi sprotafyrirtækjum. Sem slík er aðgerðin því fyrsta skref að samstarfi hins opinbera og einkafjárfesta við fjármögnun sprota- og nýsköpunarfyrirtækja sem mun halda áfram að vaxa með aðkomu Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs sem taka mun til starfa síðar á árinu.

Mikilvægt er að styðja við sprota- og nýsköpunarfyrirtæki á þeim óvissutímum sem nú ríkja og í þeim samdrætti sem er fyrirsjáanlegur. Sprota- og nýsköpunarfyrirtæki gegna mikilvægu hlutverki í atvinnulífinu og búa til verðmæti úr hugviti, enda eru mörg af okkar verðmætustu fyrirtækjum í dag í grunninn rannsóknarfyrirtæki sem byrjuðu sem sprotafyrirtæki. Fjármögnun sprotafyrirtækja er að nokkru marki annars eðlis en fyrir rótgróin hefðbundin fyrirtæki þar sem í rekstri þeirra er almennt ekki mikið um veðhæfar eignir sem legið geta til grundvallar fjármögnun. Þessi fyrirtæki eru því oft fjármögnuð með breytilegum skuldabréfum en ekki hefðbundnum lánum með tryggingum.

Um þessar mundir standa mörg sprotafyrirtæki frammi fyrir því að fjármögnun, sem búið var að tryggja, eða var langt komin, hefur verið sett á ís vegna faraldursins. Sprotafyrirtæki eru viðkvæm og oft má ekki mikið út af bregða í fjármögnun þeirra. Því er mikilvægt að ríkið styðji við fyrirtækin með þeim hætti sem lagt er til með stuðnings-Kríu en fjármálaráðherra mælti hér áðan fyrir frumvarpi til fjáraukalaga sem felur í sér að 500 millj. kr. eru veittar til verkefnisins.

Virðulegi forseti. Ég hef áður lagt áherslu á mikilvægi nýsköpunar fyrir öfluga viðspyrnu hagkerfisins upp úr þeim dal sem við erum komin í. Enn er mikil óvissa fram undan en þó er ljóst að takist okkur sem samfélagi að auka nýsköpun á öllum sviðum, jafnt í nýjum efnilegum sprotafyrirtækjum sem og í rótgrónum fyrirtækjum, mun framtíðin verða björt á Íslandi. Stuðnings-Kría ásamt auknum framlögum til Tækniþróunarsjóðs, aukinni endurgreiðslu rannsóknar- og þróunarkostnaðar, stofnunar Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs, sem ég hef þegar mælt fyrir frumvarpi um hér á Alþingi, auk annarra aðgerða sem ætlað er að efla rannsóknir og nýsköpun er allt til þess fallið að hér á landi verði góður grundvöllur fyrir nýsköpunar- og frumkvöðlastarf og auknar rannsóknir sem munu til lengri tíma skapa aukin verðmæti í formi hugvitsdrifinna nýsköpunarfyrirtækja. Þetta þarf að hafa í huga þegar rætt er um að nauðsynlegt sé að skapa aukin störf í nýsköpunargeiranum en ríkisstjórnin hefur lagt ríka áherslu á að hér á landi verði búið til hagstætt umhverfi fyrir rannsóknir og nýsköpun og veittir til þess töluverðir fjármunir í fjárlögum yfirstandandi árs, auk þeirra fjáraukalaga sem samþykkt hafa verið á Alþingi á síðustu vikum. Að öðru leyti vísa ég til greinargerðar frumvarpsins um nánari útlistun á því hvernig stuðnings-Kría mun starfa.

Ég bind vonir við að aðgerðir muni ganga vel fyrir sig þar sem undirbúningur er langt kominn og lán til að fjármagna rekstur sprotafyrirtækja verði veitt áður en langt um líður.

Að lokinni þessari umræðu legg ég til að málið gangi til 2. umr. og hv. efnahags- og viðskiptanefndar.