150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins.

843. mál
[14:34]
Horfa

ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra (Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir) (S) (andsvar):

Herra forseti. Eitt er fjárfestingarstefna fyrir Kríu og hún liggur ekki fyrir. En skilyrði fyrir mótframlagslánum eru, eins og ég nefndi, það hlutlæg að ég geri ekki ráð fyrir að það sé einhver sérstök ívilnun með tilliti til stofnanda eða stjórna fyrirtækis með tilliti til kynjasjónarmiða. En eins og ég nefndi áðan vitum við ekki hver áhuginn verður á mótframlagslánunum, hvort verður umframeftirspurn eða ekki mikil eftirspurn eða hvers eðlis fyrirtækin eru eða hvernig stofnendur eða stjórnarmenn eru skipaðir þar, hvernig kynjasjónarmiðin eru þar. Almennt erum við auðvitað enn þá að reyna að koma því þannig fyrir að fleiri konur stofni fyrirtæki og þær fari í meira mæli með fé á Íslandi. Við erum ekki komin nægilega langt í þeim efnum. Þar er almennt hægt að binda vonir við sprotafyrirtæki, að þar séu að einhverju leyti jafnari hlutföll en í ýmsum öðrum geirum í íslensku samfélagi, þannig að með því að styðja við nýsköpunargeirann í heild sinni má binda vonir við að í því felist að með einhverjum hætti megi jafna þessi hlutföll. En skilyrðin fyrir mótframlagslánum verða hlutlæg. Ég geri ekki ráð fyrir að sérstaklega verði litið til kynjasjónarmiða þar, þ.e. að hlutföllin séu þannig að ákveðin fyrirtæki fái frekar mótframlagslán en önnur, heldur séu önnur skilyrði þar undir.

Fjárfestingarstefna og Kría eru annað mál sem er ekki búið að lenda að öllu leyti og ekki búið að skipa stjórn eða annað slíkt, enda liggur málið fyrir þinginu enn þá.