150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

‘stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[15:58]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Þetta hefur á margan hátt verið áhugaverð umræða, reyndar er áhugavert hversu sannfærðir þingmenn stjórnarliðsins eru, þeir virðast ekki ætla að taka til máls í 2. umr. um málið. Á morgun munum við ræða breytta útgáfu á hlutabótaleiðinni sem er kannski sterkasta aðgerð ríkisstjórnarinnar til þessa. Það á sem sagt að þrengja hana og má með rökum segja að við það sé verið að ýta fyrirtækjum yfir í þá leið. Hv. þm. Óli Björn Kárason ýjar í raun að því og boðar ræðu á morgun.

Hv. þingmaður segir hins vegar að ekki sé samhengi á milli þessara tveggja frumvarpa, en í andsvörum við hv. þm. Andrés Inga Jónsson sagði hann samt að það væri hvati til þess að fara úr hlutabótaleiðinni yfir í þetta. Og ef það er ekki samhengi, á hvorn veginn sem er, þá veit ég ekki hvað samhengi er.

Í 1. umr. um þetta frumvarp er ég nokkuð jákvæður gagnvart tilgangi og markmiði þess. Út af fyrir sig er ég enn sannfærður um að nauðsynlegt sé að grípa til mjög stórra almennra, jafnvel róttækra aðgerða á þessum skrýtnu tímum. Gefa þarf fyrirtækjum möguleika á því að lifa í gegnum versta storminn og hefja viðspyrnuna af krafti með réttri stærð af fyrirtæki sem hentar nýjum veruleika þar sem ferðaþjónustan verður með allt öðru sniði en verið hefur.

Ég verð að segja, frú forseti, að eftir því sem ég hugsa þetta meira og hlusta á fleiri hefur sífellt meiri efi sótt á mig sem gerir það að verkum að ég get ekki stutt þetta frumvarp óbreytt.

Í fyrsta lagi, eins og ég nefndi við 1. umr., er mjög sérkennilegt og ótækt í rauninni að bjóða upp á slíka leið án þess að hefja samhliða áætlun um hvernig skapa eigi ný störf, sem mætir því fólki sem gæti lent í langtímaatvinnuleysi. Ef ríkisstjórn vill greiða fyrir því að atvinnuveitandi losi sig beinlínis við starfsmenn og slíti ráðningarsamband verður hún að sama skapi að kynna áætlanir um hvernig hjálpa á því fólki að fá vinnu. Hér þarf bæði átak á einkamarkaðnum, í rannsóknum, í grænni fjárfestingu, í nýsköpun, en ekki síður að nota tækifærið til að fullmanna undirmannaða almannaþjónustu hjá hinu opinbera. Ég nefni heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Staðan er þannig að á meðan Íslendingum hefur fjölgað um 10,5% á síðustu tíu árum hefur opinberum starfsmönnum fjölgað um 1,5%. Við sjáum því hver þróunin hefur orðið. Auk þess kom hv. þm. Smári McCarthy ágætlega inn á að hér er slaki í samfélaginu sem mun gefa stjórnvöldum augljós tækifæri til þess að koma með fjárfestingar um allt land þar sem þörf er á.

Í öðru lagi er mér algerlega fyrirmunað að skilja af hverju ekkert er gert samhliða þessu til að mæta tekjufalli þeirra einstaklinga og heimila sem nú munu horfa upp á uppsagnir og tekjuskerðingu að þremur mánuðum liðnum. Hámark tekjutengdra bóta er 456.000 kr. og vara einungis í þrjá mánuði. Ef fólk fær ekki vinnu að því loknu eru strípaðar atvinnuleysisbætur um 289.000 kr. á mánuði fyrir skatt. Það er augljóst að það verður mjög þungt fyrir fæti hjá mjög mörgu fólki og heimilum þegar líða fer að jólamánuðinum. Ég hef áhyggjur af þessu fólki og mér finnst það fullkominn dónaskapur af stjórnvöldum, samhliða því að þau ráðast í stórar tugmilljarða aðgerðir sem verja að hluta til hlutafé eigenda fyrirtækja, að mæta einstaklingum ekki betur. Ég hef líka áhyggjur af því að hlutabótaleiðin, sem er langmikilvægasta aðgerð sem við höfum ráðist í hingað til í þágu launafólks, og leiðin um laun í uppsagnarfresti vinni beinlínis hvor gegn annarri. Í fyrsta lagi eru skilyrði fyrir því að nýta þessar leiðir mjög ólík, sem er beinlínis furðulegt. En ef einhver rök eru fyrir því að hafa mismunandi skilyrði þá ættu a.m.k. skilyrðin fyrir því að fá greitt fyrir að segja fólki upp að vera strangari en öfugt þannig að hvatinn væri þá frekar að halda ráðningarsambandi og velja hlutabótaleiðina heldur en hitt. Það er einfaldlega verið að búa til freistnivanda sem felst í þessu með þessum ólíku skilyrðum sem hvetja beinlínis fyrirtæki til að ráðast frekar í uppsagnir en að nýta sér hlutabótaleiðina og slíta þannig ráðningarsambandi við fólk sem við höfum skilið að ætti að verja til hins ýtrasta. Þannig er þetta. Á meðan frumvarp hæstv. félagsmálaráðherra takmarkar aðgang að leiðinni við það að stjórnendur borgi sér ekki 3 milljónir á mánuði þá gerir hæstv. ráðherra engar slíkar kröfur í þessu frumvarpi. Nú er ég alls ekki að segja að það ráði úrslitum, að það sé jafnvel líklegt til að ráða úrslitum, en það gerir einfaldlega, með réttu eða röngu, ákvarðanir stjórnenda fyrirtækjanna tortryggilegar og setur þá í erfiða stöðu.

Nú eru einmitt fréttir af hópuppsögnum hjá áður mjög öflugu og þekktu ferðaþjónustufyrirtæki, sem mun vonandi rétta úr kútnum. Í yfirlýsingu hafa stjórnendur vissulega sagt að þeir voni að hægt sé að ráða fólkið aftur, sem nú er verið að segja upp með stuðningi ríkisins, þegar hjólin fari að snúast. Auðvitað vonum við sannarlega að það gangi eftir. En maður spyr sig þá: Af hverju var þá ekki hlutabótaleiðin valin ef vilji stendur til þess að halda ráðningarsambandi? En staðreyndin er bara sú að með uppsagnarleiðinni gefst fyrirtækinu tækifæri til að nýta fulla starfskrafta starfsmanna næstu þrjá mánuði, nú yfir hásumarið þar sem einhver von er um ferðamenn, en með því að nýta hlutabótaleiðina gætu þau það ekki. Þess vegna spyr maður sig hvort þessi frumvörp séu ekki að vinna hvort gegn öðru og hvort ekki hefði verið betra að halda áfram rúmri hlutabótaleið og fara þá í sértækar aðgerðir fyrir einstök fyrirtæki sem eru kerfislega mikilvæg.

Hvort fólkinu sem nú er verið að segja upp verður boðin vinna í haust, held ég muni ráða því hvaða dóm þessi aðgerð ríkisstjórnarinnar mun fá. Það er ekki einu sinni búið að svara því að gangi þetta upp og fyrirtækin verði starfhæf með þessari leið, hvaða áhrif slíkt hefur á samkeppni við önnur fyrirtæki sem ekki komast í þessa leið og velja hlutabótaleiðina og þurfa svo að keppa á einhverju sem heitir jafnréttisgrundvöllur að henni lokinni. Mér finnst vandasamt að svara þeirri spurningu. Þrátt fyrir ákvæði í frumvarpinu um það með hvaða hætti fólk heldur réttindum sínum, verði það svo ráðið aftur inn, skulum við a.m.k. passa okkur á því að fylgjast með því hvort fólk verður sannarlega ráðið inn á sömu kjörum og ástandið ekki nýtt til að skerða kjör launafólks. Ég ætla engum það. En það eru auðvitað ótal leiðir þegar maður endurræður fólk til að búa því önnur skilyrði, sem hefur sannarlega áhrif á tekjur þess á endanum.

Þessu til viðbótar eru fjölmörg rök í mjög vönduðu nefndaráliti hv. þingkonu Oddnýjar Harðardóttur, sem ég ætla ekki að eyða miklum tíma í hér, en ég vísa í ræðu hennar og álitið sjálft. Þau rök lúta t.d. að mikilvægi þess að skapa hvata fyrir fyrirtæki að halda frekar ráðningarsambandi við fólk í gegnum hlutabótaleiðina. Þess vegna leggjum við til að þau fyrirtæki sem nýta sér þetta úrræði, lokunarleiðina, greiði tekjuskattsauka frá 2023 í að hámarki tíu ár. Það er í fyrsta lagi ákveðið réttlætismál að fyrirtæki endurgreiði stuðninginn þegar þau geta, eftir því sem afkoma og afkomubati leyfir, og þetta er hvati til að halda sér í hlutabótaleiðinni, sem ég tel skynsamlegra úrræði.

Þá höfum við, í þessu máli og öðrum tengdum þessari veiru, sagt að fyrirtæki og auðmenn eigi ekki að nýta sér skattaskjól eigi þeir að eiga rétt á stuðningi. Þeir hafa reyndar sagt sig frá öllum ríkisstuðningi með því að greiða ekki skatta og opinber gjöld. Þetta er ekki endilega spurning um lögfræði, ekki einu sinni siðfræði. Ef fyrirtæki velur að haga rekstri sínum með einhverjum öðrum hætti til þess að lágmarka þá upphæð sem það vill greiða til samfélagsins þá gerir það það einfaldlega, en það hlýtur þá að þurfa að gjalda þess á móti að sama apparat og það vill síður greiða til kemur þá ekki með sama krafti til móts við það og aðra.

Einnig teljum við að þegar krafa er um að hið opinbera stígi fast til jarðar og styðji við atvinnulífið, og það er sannarlega mikilvægt að gera það, bæði til að verja störf og tryggja að fyrirtæki verði áfram starfhæf og skili okkur arði inn í sameiginlega sjóði, verði að gera þá kröfu að þessar aðgerðir leiði á endanum til meiri velsældar og jafnari lífskjara fyrir allt fólk í landinu. Þess vegna er þessi breytingartillaga gerð með nefndaráliti hv. þingkonu Oddnýjar Harðardóttur um að sett verði skilyrði fyrir áætlun í loftslagsmálum og að stjórnvöld setji loftslagsbreytingar þannig rækilega á dagskrá og fyrirtæki einnig. Þetta er ekki íþyngjandi úrræði og a.m.k. þegar fyrirtæki standa frammi fyrir þessum vanda og eru hvort sem er að fara að endurskipuleggja sig ættu þau að hafa fullan vilja til að taka þessu með jákvæðni.

Að lokum teljum við að fyrirtæki sem greiða eigendum sínum eða æðstu stjórnendum ofurlaun, notum þá bara viðmiðin úr frumvarpi hæstv. félagsmálaráðherra, meira en 3 milljónir á mánuði, eigi ekki að njóta stuðnings, bæði til að samræma skilyrði við hlutabótaleiðina en líka til að auka tekjujöfnuð í landinu. Ég ítreka að ef það ætti að vera vægara skilyrði í öðru frumvarpinu ætti það klárlega að vera í hlutabótafrumvarpinu. Samfylkingin mun þess vegna leggja til breytingartillögur til að mæta lágmarkskröfum fyrir stuðningi við þetta frumvarp, lágmarkskröfum til þess að við getum a.m.k. stutt það, vegna þess að öðrum kosti þá virka þessi frumvörp illa saman og að mörgu leyti er þetta óréttlátt.

Ég geri mér alveg grein fyrir því, frú forseti, að tölfræðin er ekkert sérstaklega með mér í þessu máli. Mér telst þannig til að hingað til hafi ein breytingartillaga frá stjórnarandstöðunni verið samþykkt í öllu þessu kófi, jafnvel þó að síðar hafi komið á daginn að ríkisstjórnin og stjórnarmeirihlutinn hafi talið eitthvað þarna svo gott og mikilvægt að það hafi svo birst síðar hjá þeim. Þetta er vonda hliðin á pólitík.

Frú forseti. Ég vona svo sannarlega að þarna verði breyting á og að breytingartillögur okkar verði samþykktar. En verði ekki orðið við þessum breytingum, frú forseti, mun ég ekki geta greitt atkvæði með þessu frumvarpi.