150. löggjafarþing — 109. fundur,  28. maí 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[20:59]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. framsögumanni Ásmundi Friðrikssyni fyrir afbragðskynningu á nefndaráliti velferðarnefndar í þessu máli. Það er auðvitað eðlilegt að lagabreyting af þessu tagi líti dagsins ljós á okkar tímum þegar við erum að fikra okkur inn í breytt orkuumhverfi og taka nýja orkugjafa í notkun í auknum mæli, sem er rafmagn. Það eru ekki allir sem búa í séreign og í vaxandi mæli munum við líklega búa í fjöleignarhúsum. Ég held að lög um fjöleignarhús frá árinu 1994 taki alveg utan um þetta með skýrum hætti, að það sé sameiginlegt átak að koma upp aðstöðu sem þessari, enda sé þá ekki viðkomandi bílastæði, eitt eða fleiri, eign viðkomandi til sérafnota fyrir einn eða fáa. Þetta á auðvitað ekki bara við um fatlaða, þetta á við um almenn fjöleignarhús og líka húsnæði fyrir aldraða.

Mig langar að spyrja hv. framsögumann: Eitt er að koma þessari aðstöðu upp, hitt er svo reksturinn á þessum stöðvum og notkunin. Er þá gert ráð fyrir að það verði líka sameign eða er gert ráð fyrir því að greiðsla komi úr sameiginlegum sjóði fjöleignarhússins?