150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:46]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við greiðum atkvæði um mál um greiðslu launa á uppsagnarfresti. Hér er í rauninni um að ræða enn eitt Covid-málið, þ.e. við erum að fara þá leið að reyna eftir megni að forða því að fyrirtæki leggi upp laupana og fari á hausinn og launagreiðslur lendi á Ábyrgðasjóði launa. Þetta er gert til að það verði þá a.m.k. eitthvað fleiri fyrirtæki eftir í ýmsum atvinnugreinum, þegar hagkerfið fer aftur á snúning, til að ráða starfsfólk sem þar starfar nú og hefur verið sagt upp. Ég tek undir þá beiðni að kalla málið inn milli 2. og 3. umr. til að bregðast við sjónarmiðum Alþýðusambands Íslands. Það er mikilvægt að hlustað sé eftir sjónarmiðum aðila vinnumarkaðarins í þessum efnum. Ég tel þess vegna mikilvægt að við köllum málið inn á milli umræðna.