150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

stuðningur úr ríkissjóði vegna greiðslu hluta launakostnaðar á uppsagnarfresti.

811. mál
[11:57]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég hlýt auðvitað að hafna því alfarið að fulltrúar minni hlutans vilji að fyrirtæki fari á hausinn í stórum stíl. Það er út í hött að halda því fram. Ég kom hér upp áðan og taldi upp fjölmargar aðrar lausnir sem við komum með sem hefðu ekki innbyggðan hvata til uppsagna sem við erum að gagnrýna hér. Við erum m.a. að gagnrýna það að hvatt er til þess að segja upp starfsfólki en geta svo ráðið það aftur án þess að tryggt sé að viðkomandi þurfi ekki að sætta sig við lægri laun að því loknu. Þetta er mikilvægt atriði.

Ég vil að lokum fagna því að við séum hér að taka hálftíma umræðu um þetta mál. Það hefur ekki borið á því að við heyrum mikið frá stjórnarliðum hvers vegna þeir vilji fara þessa leið. Í 2. umr. var það orðið svo að þrír stjórnarþingmenn lýstu skoðun sinni á frumvarpinu þannig að ég tek ekki undir með forseta að það sé einhvern veginn óeðlilegt að við séum að ræða það nú. Ég fagna því að afstaða stjórnarþingmanna komi alla vega að einhverju leyti fram.