150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

Menntasjóður námsmanna.

329. mál
[13:20]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P):

Virðulegur forseti. Það er fátt í fjármálum á Íslandi sem er jafn mikið bitbein í pólitík og verðtryggð lán. Það skiptir máli að þegar fólk fær að velja á milli verðtryggðs og óverðtryggðs lán þá viti það nákvæmlega hvað það er að gera, þekki forsendurnar eins vel og hægt er að þekkja þær. En hluti vandans er sá að ekki er hægt að þekkja allar forsendur verðtryggðs láns vegna þess að verðtrygging er bundin við vísitölu sem enginn veit hvernig verður í framtíðinni. Þegar um er að ræða ungt fólk, sem er sennilega að taka sín fyrstu lán í lífinu, skiptir sér í lagi máli að fræðsla sé viðunandi um kosti og galla verðtryggðra og óverðtryggðra lána. Því leggur 1. minni hluti til að það verði alveg skýrt hlutverk sjóðsins að veita þá leiðsögn. Það er alveg ljóst í þokkabót að þrátt fyrir faglega leiðsögn af hálfu bankanna hefur þetta ekki tekist hingað til hvað varðar íbúðalán. Því er allur varinn góður þegar kemur að þessum málum og full ástæða til að hafa það hlutverk Menntasjóðsins skýrt og þá fræðslu sem besta.