150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

fjöleignarhús.

468. mál
[13:36]
Horfa

Anna Kolbrún Árnadóttir (M) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég hef kallað eftir því að fá þetta mál aftur inn til nefndar þar sem ég hef ekki skrifað undir álit og við í Miðflokknum getum ekki stutt það sem segir hér að við séum að skylda fólk til að taka þátt í ófyrirséðum kostnaði í fjöleignarhúsum. Það sem mig langar til að gera er að freista þess að snúa málinu í þann farveg sem t.d. er verið að gera hjá Reykjavíkurborg. Þar er samvinna borgarinnar við Veitur og Orku náttúrunnar sem leggja til fjármagn í stað þess að setja kostnaðinn á íbúðareigendur. Þess vegna óska ég eftir því að málið fari aftur til nefndar.