150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:36]
Horfa

Frsm. meiri hluta velfn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Forseti. Nei, ég get alveg svarað því beint að ég tel það ekki sérstakan hvata. Út frá stöðu hvers fyrirtækis fyrir sig verða menn að leggja blákalt mat á þann veruleika hvernig hægt er að koma í veg fyrir að fyrirtæki verði gjaldþrota með tilheyrandi afleiðingum fyrir alla, samfélagið, fyrirtækið og launamenn sem vinna hjá því. Ég held að það sé það val sem allir standa frammi fyrir núna, að velja þá leið sem hentar best til til að koma í veg fyrir gjaldþrot og að fólk missi atvinnuna.

Varðandi lágskattasvæði og skattaskjól þá erum við öll á því að við viljum með öllum hætti koma í veg fyrir að fyrirtæki sem brjóta íslensk lög um skattgreiðslur og tekjuskatt velji þetta úrræði. Ef fyrirtæki ætla að vera svo ósvífin að gera það þá komast þau líka í kastljós og undir smásjá eftirlitsaðila, skattrannsóknarstjóra, og ég held að það sé mikill fælingarmáttur í því. Ef menn ætla sér virkilega að nýta þetta úrræði við þessar aðstæður og vera að (Forseti hringir.) brjóta íslensk lög eru þau þar með að segja við íslenska ríkið: Rannsakið okkur í leiðinni. Það er þá bara gott að þau fyrirtæki sem gera það fái almennilega rannsókn.