150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[15:48]
Horfa

Hanna Katrín Friðriksson (V) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég vona að við séum öll sammála um að skýrleiki þarf að vera til staðar. Það er bara spurning um hvaða girðingar við reisum og hagsmunum hverra við erum að þjóna með þeim aðgerðum sem hér eru reistar af meiri hlutanum.

Hv. þingmaður vísar mikið og oft í skýrslu Ríkisendurskoðunar og mig langar til að spyrja um eitt sem kom mjög skýrt fram hjá Ríkisendurskoðun og það var þörfin fyrir getu Vinnumálastofnunar til að vera með rauntímaeftirlit. Í raun má segja að í því hafi falist áfellisdómur yfir stjórnsýslunni, að á sama tíma og Vinnumálastofnun er að fá þetta stóra hlutverk hafi henni ekki verið veitt nægilegt svigrúm eða bolmagn til að sinna rauntímaeftirliti sem Ríkisendurskoðun taldi að væri lykilatriði í því að eftirlitið ætti sér stað, væri öflugt og væri sanngjarnt, bæði fyrir ríkissjóð og fyrirtækin sem er verið að rétta hjálparhönd. Það felst engin sanngirni í eftiráskýringu.

Ég spyr hv. þingmann: Er meiri hlutinn með einhver viðbrögð við (Forseti hringir.) þessari ósk, ábendingu og gagnrýni Ríkisendurskoðunar á framkvæmd stjórnsýslunnar og tækifærin sem Vinnumálastofnun fær til að sinna rauntímaeftirliti?