150. löggjafarþing — 110. fundur,  29. maí 2020.

atvinnuleysistryggingar og Ábyrgðasjóður launa.

813. mál
[17:23]
Horfa

Andrés Ingi Jónsson (U) (andsvar):

Herra forseti. Þetta er svo stuttur tími að hv. þingmaður komst ekki yfir seinni hluta spurningarinnar. Við höfum þá aðra lotu til að afgreiða það. Mér þykir það vera ákveðið lykilatriði hvernig þessi mál voru unnin saman eða hvort þau hafi yfir höfuð eitthvað verið skoðuð saman. Það stekkur t.d. á okkur, þegar við lesum þetta mál með uppsagnarstyrkina við höndina, samanburður á birtingu lista yfir þau fyrirtæki sem nýta sér hvora leið. Efnahags- og viðskiptanefnd fékk í hendurnar frumvarp þar sem Skattinum var heimilt að birta þessar upplýsingar og breytti því í það að Skatturinn skuli birta slíkar upplýsingar en velferðarnefnd fékk algjörlega sambærilegt ákvæði gagnvart Vinnumálastofnun og þrengdi það. Var eitthvað unnið saman á milli nefndanna? Var eitthvað reynt að greina hversu margir einstaklingar væru líklegir til að færast af hlutabótaleiðinni yfir á uppsagnarstyrkina eða hvernig hægt væri að stilla þetta af þannig að það kæmi sem best út fyrir einstaklingana sem eru samkvæmt þessu kerfi að fara að missa vinnuna?

Hv. þingmaður nefndi grænar áherslur sem ekki var vilji til að setja inn sem einhvers konar mild skilyrði fyrir stærstu styrkjunum og þá er náttúrlega himinhrópandi líka, vegna þess að við hljótum að vilja að viðspyrnan eftir Covid verði bæði græn og sanngjörn, að þetta mál er allt annað.